151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hafi ég misskilið orð hv. þingmanns um það sem að stjórnarskránni snýr verð ég bara að biðjast afsökunar á því. Við skulum að grípa hér niður í 2. mgr. 1. gr. núgildandi laga um loftferðir. Þar getur ráðherra ákveðið að hve miklu leyti reglur, settar samkvæmt heimild í lögum, gildi utan íslensks yfirráðasvæðis. Er ráðgert að ef nýta þurfi þá heimild sem ákvæðið tiltekur þurfi gildissvið hennar einnig ná til flugrekenda með staðfestu utan Íslands. Skiljið þið? Auðvitað bera íslenski yfirvöld ekki ábyrgð á því að einhver flugrekandi meini Íslendingi að stíga um borð í flugfar vegna þess að það er á ábyrgð þess ríkis og þess flugfélags. Það er ósköp eðlilegt að þær reglur sem settar eru á landamærum Íslands gildi jafnt um íslensk flugfélög sem erlend flugfélög. Ef menn koma skilríkjalausir, passalausir, þá fá þeir ekki að fara um borð í flugfar. Og af hverju er það? Það eru náttúrlega ákveðnar reglur bæði hjá landinu sem um ræðir og á Íslandi um slíkt. Þannig að ég skil ekki einu sinni hvað við erum að ræða um, hvernig þetta snertir stjórnarskrána. Ég geri það bara ekki.