151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:05]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mál sem hefur greinilega vakið upp ákveðinn ótta í samfélaginu og kannski ekki að tilefnislausu. Mig langar að spyrja um nokkur atriði varðandi nefndarálit meiri hlutans. Mjög margar umsagnir um frumvarpið voru mjög neikvæðar og í þeim eru lagðar til verulegar breytingar og jafnvel að málinu í heild sinni yrði vísað frá. Ég heyrði hv. þingmann segja í lok ræðu sinnar að hún teldi að komið hefði verið til móts við þær áhyggjur. Ég myndi vilja að hún segði aðeins meira um það hversu mikið af þeim áhyggjum komið var til móts við og hversu margar af þeim umsögnum sem bárust voru neikvæðar og lögðu til að gert yrði eitthvað annað en að samþykkja þetta frumvarp.

Svo langar mig að spyrja út í stafrænu smiðjurnar. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur frá bókstaflega fyrsta degi verið grundvöllur samvinnu um stafrænar smiðjur FabLab á Íslandi. Ég velti því fyrir mér hvað það er sem fær hv. þingmann til þess að líta svo á að þessi ráðstöfun muni verða til þess að efla stafrænar smiðjur. Er t.d. komin einhver stefna? Er komið eitthvert tiltekið fjármagn? Er komin einhvers konar umgjörð sem tryggir að næsta skref fyrir stafrænar smiðjur verði ekki einhvers konar tómarúm þar sem enginn skýrleiki er til staðar þangað til einhverjum dettur í hug að búa til einhvern skýrleika, kannski síðar á árinu eða jafnvel á næsta ári eða t.d. seint á næsta kjörtímabili?