151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Hvers vegna þessi tímasetning? Ég kom inn á það áðan. Auðvitað á að endurskoða alla hluti reglulega og þar á meðal nýsköpun. Við getum ekki verið með einhverja fortíðarhyggju í þeim efnum. Það hlýtur líka að þurfa nýsköpun í hugsun í þeim efnum. Það er akkúrat það sem verið er að gera með frumvarpinu, að vera með nýsköpun í hugsun, hvernig því verður best fyrir komið að hafa nýsköpun aðgengilega fyrir alla landsmenn í samkeppni við aðrar þjóðir og að ná tökum á því hvernig við getum reist þjóðarhag við. Að verið sé að rústa aðgengi að nýsköpun — þetta eru svo mikil öfugmæli sem mest má vera. Ég hefði nú haldið að Píratar af öllum flokkum væru hrifnir af því að við þróuðum okkur inn í stafrænt umhverfi, sem við erum nákvæmlega að gera með nýsköpunargáttinni, sem er nýjung í málinu. Við erum að setja hana á stofn og þar á að veita góða ráðgjöf til allra, hvort sem þeir búa í Grímsey, á Þórshöfn eða á Drangsnesi. Það hefur ekki verið aðgengi á þessum stöðum hingað til. Áfram verður nýsköpunarfulltrúi ráðinn á Ísafjörð og Vestmannaeyjar og þeir nýsköpunarfulltrúar sem verið hafa á Akureyri verða til aðstoðar við þessi mál í gegnum ráðuneytið. Ég tel að þessum málum sé bara mjög vel fyrir komið með þessu fyrirkomulagi.

Varðandi fjármögnun til nýsköpunar vil ég bara benda á að nýverið var úthlutað styrkjum úr Rannsóknasjóði fyrir 2021. Það hafa aldrei fleiri verkefni verið styrkt eða hærri upphæðum úthlutað og sjóðurinn hefur til ráðstöfunar 3,7 milljarða á þessu ári. Það er því ekki hægt að segja að ekki sé verið, af hálfu ríkisvaldsins, að spýta hressilega inn í þennan málaflokk við þessar aðstæður. Það á vonandi eftir að skila sér til framtíðar og til uppbyggingar.