151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki var nú úthlutunarhlutfallið hátt í haust, 8% af þeim umsóknum sem bárust, af þeim umsóknum sem töldust góðar. Í vor þegar faraldurinn byrjaði kom stjórnarandstaðan hingað upp og sagði: Nei, það þarf ekki bara 3 milljarða í nýsköpun, það þarf 9 milljarða. Sú tala var rétt miðað við þá úthlutun. Það þurfti síðan meira í kjölfarið, alveg tvímælalaust, en stjórnarandstaðan kom með rétta tölu inn í allt þetta ferli. Það er ekki rétt að tala um að það sé einhver fortíðarhyggja þegar maður er að gagnrýna það að búið sé að búa til gjá þegar verið er að henda út þeirri þekkingu sem var til staðar áður en ný þekking og nýtt kerfi er byggt upp. Það er skemmdarverk. Þú byrjar á því að koma með áætlun um það hvernig nýja kerfið eigi að líta út áður en þú hendir því gamla út. Annars myndast gjá og hún er það sem ég var að lýsa.

Í umsögn Space Iceland er talað um atgervisflótta, hvernig starfsfólkið sem býr yfir þekkingu á þessu sviði hefur í raun flúið þessar aðstæður af því að starfsöryggi þess er horfið. Það leitar að sjálfsögðu að nýju öryggi. Þetta er vandamálið sem ég er að lýsa. Ég get gagnrýnt frumvarpið sem slíkt fyrir ýmsar sakir en ég ætla síður að gera það. Ég er að beina athygli að því hvernig þáverandi fyrirkomulagi er hent út án þess að til sé áætlun um það hvað eigi að koma í staðinn. Það var það sem ráðherra gerði, hann ákvað að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður í febrúar 2020 án þess að hafa hugmynd um hvort það sparaði pening. Það komu eftiráskýringar en ekki er enn búið að sýna fram á að þær hafi verið réttar og síðan átti að koma með áætlun um það hvað ætti að koma í staðinn. Þetta er svo rangt gert og skaðinn af þessu er svo augljós en vonandi kemst þetta í gang og verður vel gert. En í millitíðinni þá er þetta algjört kaos.