151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að þetta sé algjört kaos. Breytingin hefur átt sér langan aðdraganda og vissulega hafa margir komið að þessu máli til að gera það enn betra. Ég tel að sú gjá sem hv. þingmaður talar um, ef um gjá hefur verið að ræða, hafi verið brúuð. Við höfum unnið að því í atvinnuveganefnd að fylla upp í það sem við höfum talið að þyrfti að bæta í þessu máli og unnið þétt saman. Ýmsir fagaðilar hafa verið kallaðir til ráðgjafar og tekið hefur verið tillit til þeirra umsagna sem hafa borist. Ég er því mjög ánægð með þessa afurð eins og hún er orðin núna og tel að með því að flétta þetta saman við byggðaáætlun, sóknaráætlun landshlutanna, samvinnu landshlutasamtaka og atvinnuþróunarfélaga á hverju svæði og einkafyrirtækja geti þessir aðilar nú sótt um í Lóu sem auglýst hefur eftir umsóknum. Sá sjóður mun geta styrkt og byggt upp innviði vítt og breitt um landið. Og víða eru slíkir innviðir að byggjast upp af hálfu heimamanna og fyrirtækja á svæðunum. Þar eru til úthlutunar 100 milljónir til að byrja með í þessum verkefnasjóði svo að ég held að við séum komin á góðan stað og er full ástæða til að halda því á lofti að á þessu kjörtímabili hafa opinber framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukist um meira en 70%. Ég segi bara 70%. Það hlýtur að vera einhvers virði að hafa lagt þessa miklu áherslu á það á þessu kjörtímabili að styrkja og efla nýsköpun í verki en ekki bara í orði og við erum líka að gera það með þessu frumvarpi.