151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:58]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nýsköpun skiptir máli. Við erum þekkingarsamfélag og við höfum verið það frá upphafi byggðar á Íslandi. Töluverða þekkingu þarf til að búa í harðbýlu landi og það á fyrir vikið að vera grundvallarforsenda allra ríkisstjórna að leggja höfuðáherslu á að nýsköpun á Íslandi sé með besta mögulega móti. Með þessu frumvarpi er verið að slátra nýsköpunarumhverfinu á Íslandi, slátra því. Þetta er ekki orðum aukið, herra forseti, og ég mun rekja það í löngu máli hér á eftir, fyrst og fremst með því að vitna í umsagnir.

Mig langar til að trúa því að frumvarpið sé lagt fram með góðum ásetningi en góður ásetningur er ekki sá gjaldmiðill sem margir stjórnmálamenn vilja trúa að hann sé. Ég verð að segja að það er oft sem maður er ósammála frumvörpum á Alþingi og það er allt í lagi en það er sjaldan sem manni blöskrar. Það er öllum ljóst sem til þekkja að víða er pottur brotinn í nýsköpunarumhverfi á Íslandi og hefur verið lengi. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er ekki fullkomið apparat. Tækniþróunarsjóður er ekki fullkomið apparat. Það er ekkert fullkomið í nýsköpunarumhverfi okkar og ég verð að segja að nýsköpunarumhverfið á Íslandi er í rauninni afleitt ef maður ber það saman við flest lönd í Evrópu. Það er eitthvað sem við höfum oft talað um að þurfi að laga og hér erum við nú með frumvarp sem í raun gerir allt öfugt við það sem við ættum að vera að gera. Það hefði verið hægt að fara af stað á þann hátt að tala við starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar, tala við starfsfólk Rannís og Tækniþróunarsjóðs, tala við starfsfólk hjá sprotafyrirtækjum, nýsköpunarfyrirtækjum og víðar og komast að því hvað og hvernig við gætum lagað öll þau fjölmörgu vandamál sem eru til staðar í nýsköpunarumhverfinu og bætt þannig stuðningssjóði, gengið inn í alþjóðlega samvinnu, verið í fararbroddi í þessum hlutum, í stað þess að henda öllu út eins og hér er gert og ætla sér einhvern veginn að byrja upp á nýtt án þess að það liggi fyrir nákvæmlega hvernig eigi að byrja upp á nýtt.

Það er ljóst að hæstv. ráðherra óð af stað í þessa vegferð án þess að kynna sér hvað væri undir. Það sést m.a. á því að eftir að tilkynnt var um að Nýsköpunarmiðstöð Íslands yrði lögð niður var farið í þá vinnu að kynna sér hvað nákvæmlega fælist í því í stað þess að reiða sig á langa reynslu starfsmanna og sérfræðinga á sviðinu. Það var mestmegnis hunsað og farið í að gera ráðstafanir sem ná engri átt. Sem einfalt dæmi ætla ég að nefna að efnagreiningar voru fluttar til Hafrannsóknastofnunar. Nú veit ég að þekking er til staðar í Hafrannsóknastofnun á efnagreiningum. Það er enginn sem deilir um það, það vantar ekki. En það hlýtur að gefa augaleið að stofnun sem hefur fyrst og fremst stofnanalegan áhuga og sérfræðiþekkingu á höfum og vötnum og lífríki þeirra hefur ekki í grunninn stofnanalegan áhuga á t.d. burðarþolsmælingum á steypu eða tæringu í málmum. Það er ekki innan verksviðs Hafrannsóknastofnunar. Þetta er ekki gagnrýni á þekkinguna sem er þar fyrir hendi, hún er alveg til staðar, þetta er þokkalega vel þekkt fræðasvið, heldur gagnrýni á það að stofnunum séu falin verkefni sem þau hafa ekki stofnanalegan áhuga á og ganga þvert á eðli þeirra og tilgang.

Á þennan hátt, og reyndar eru fleiri dæmi, er grafið undan í umgjörð nýsköpunar án þess að tryggja að skýrleiki sé til staðar fyrir framhaldið og það á tímapunkti í sögu Íslands þegar hagkerfið má ekki verða fyrir meiri skaða. Ég er ekki að segja að það væri í lagi að fara nákvæmlega þessa leið ef við værum í gargandi uppsveiflu, enda er margt við þá leið að athuga. En þegar 10,4% samdráttur er í hagkerfinu út af heimsfaraldri Covid þá hlýtur að gefa augaleið að það væri fínt að staldra aðeins við, stíga varfærnari skref og reyna kannski að byggja upp frekar en að rífa niður. En þetta er allt saman gert og byggt á þeirri trú að lausnin sé að auka fjárfestingar en minnka þjónustu. Staðreyndin er samt sú að lönd, einkum smærri lönd, þurfa að hafa mjög hátt þjónustustig við lítil og meðalstór fyrirtæki ef þau eiga að komst af. Mér hefur fundist eins og að bæði frumvarpið um opinberan stuðning við nýsköpun og um Tækniþróunarsjóð séu einhvers konar Kísildalsvæðing á nýsköpunarumhverfinu, að verið sé að leggja alla áherslu á einhvers konar einhyrningaframleiðslu á kostnað þess að styðja við öll þau fjölmörgu fyrirtæki á Íslandi sem þurfa á t.d. efnagreiningarþjónustu Nýsköpunarmiðstöðvar að halda eða hvers konar annarri þjónustu í gegnum það stuðningsnet sem var til staðar.

Sögulega höfum við hér á Íslandi verið rosalega góð í að koma fyrirtækjum og koma hugmyndum upp á tækniþróunarstig eitt til þrjú. Þegar talað er um tækniþróunarstig er þetta níu stiga kerfi þar sem fyrstu stigin eru einfaldar hugmyndir en á efstu stigum ertu kominn með vöru á markað sem er fullgild og hefur alla burði til að gera það gott á markaði. Ísland hefur alla vega síðustu áratugi staðið sig mjög vel á fyrstu þremur tækniþróunarstigunum. Við höfum verið verri á stigum fjögur til níu. Hér virðist eins og það sé einblínt svolítið á stig sjö til níu en á kostnað allra leiða til að komast þangað, á kostnað þess að til sé grunnfjármögnunarstuðningur fyrir fyrsta til sjötta stig, sem allt að því hverfur og það sérstaklega á landsbyggðinni. Meðal annars segir í umsögn Vestmannaeyjabæjar, með leyfi forseta:

„Tekið er undir meginmarkmið frumvarpsins, en ekki er að sjá að áhersla á nýsköpun á landsbyggðinni fái umfjöllun í meginefni frumvarpsins. Frumvarpið gengur að mestu út á stofnun tækniseturs, en aðeins er fjallað um nýsköpun á landsbyggðinni í greinargerð með frumvarpinu.“

Þetta er alveg hárrétt ábending, enda endurómar hún í fleiri gagnrýnum umsögnum um frumvarpið.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í löngu máli í umsögn Space Iceland vegna þess að viðhorfið sem kemur fram í þeirri umsögn er eitthvað sem ég get tekið heils hugar undir þó svo að orðalagið sé kannski frekar hart. Það er allt rétt í þessu hjá þeim, með leyfi forseta:

„Space Iceland getur ekki stutt framgang frumvarpsins. Það er illa unnið, í andstöðu við eigin yfirlýst markmið, tímarammi breytinga er of stuttur, greiningar vantar, vandamálin sem ætlað er að leysa eru hreinlega ekki í tengslum við boðaðar aðgerðir, samráð skortir og að mati Space lceland er einfaldlega óafsakanlegt á tímum efnahagslegrar niðursveiflu að eyðileggja stuðningskerfi nýsköpunar með þeim hætti sem hér er lagt til án ítarlegra greininga og áætlunar um hraða uppbyggingu hins nýja stuðningskerfis. Í stuttu máli telur Space Iceland þetta frumvarp einfaldlega ekki fullorðins og furðar sig á að slík hrákasmíð sé lögð fram með tilheyrandi vinnu fyrir löggjafann og hagsmunaaðila.

Sá skaði sem þegar hefur verið unninn af hálfu nýsköpunarráðuneytisins á starfsemi stofnunarinnar vegna hirðuleysis um fagleg vinnubrögð og skilning á ábyrgð er samfélaginu kostnaðarsamur. Fjöldi starfsmanna hefur þegar fundið sér vinnu annars staðar. Starfsemi stofnunarinnar hefur dregist saman og stefnumótun og sókn til framtíðar verið lítil sem engin. Framgangur ráðuneytisins er ábyrgðarleysi á nýjum skala. Vegna þess að ráðherra hefur beitt fyrir sig landsbyggðum og stuðningi við nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins í þessu máli vill Space Iceland benda á að tilkynningin ein og þrýstingur ráðuneytisins á að þjónustu stofnunarinnar sé ekki viðhaldið er þegar þess valdandi að aðeins eru fjórir starfsmenn eftir af 20 hjá Nýsköpunarmiðstöð sem tengjast stuðningi við frumkvöðla á frumstigi og fækkar í tvo á næstunni. Þeir voru 20 fyrir tilkynningu ráðherra í febrúar. Starfsemi á Ísafirði er farin, starfssemi á Akureyri er tóm skel í dauðateygjum. Stofnunin hefur ekki getað ráðið starfsfólk til að koma til móts atgervisflóttanum. Auðvelt er að segja sjálfum sér að breytingar kosti bara fórnir en í þessu máli er vandinn sá að nákvæmlega ekkert hefur verið gert til að draga úr óvissu og skaða.

Frumkvöðlum í setrum Nýsköpunarmiðstöðvar hefur verið tilkynnt um að aðstaða standi þeim aðeins til boða út mánuðinn og nýir frumkvöðlar hafa ekki fengið aðgang. Margir horfa á rúmlega tíföldun í leigukostnaði á opnum markaði. Slíkt áfall fyrir fyrirtæki á frumstigum mun leiða til þess að einhver verkefni komast aldrei yfir þróunar- og vinnslustig.

Það er ekki annað hægt en að setja þetta mál í samhengi við fálmkennd og veik viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 kreppunnar. Stærð aðgerðar er hlutfallslega minni en í öllum nágrannalöndum okkar. Samdráttur á Íslandi er Evrópumet. Auk þess sem flestar aðgerðir stjórnvalda hafa geigað. Ríkisstjórnin hefur áður valið aðferðir til hagvaxtar og viðspyrnu út úr kreppu sem eiga sér ekki dæmi annars staðar í heiminum.“

Ég gæti haldið áfram en ég ætla að staldra við hér bara til að leggja áherslu á nokkra af þessum punktum. Það er öllum ljóst sem vinna í nýsköpunarumhverfi að það tekur gífurlegan tíma að byggja upp þekkingu. Það tekur gífurlegan tíma að skrifa umsóknir um styrki og bíða eftir að úthlutun eigi sér stað. Þegar helsta stofnun nýsköpunar á Íslandi er sett í þá stöðu að vita að það er verið að fara að loka eftir einhvern tíma þá þýðir það augljóslega að allir starfsmenn fara strax í þá vinnu að reyna að loka málum, opna ekki fleiri, og sæki ekkert endilega um fleiri styrki vegna þess að þau vita ekki hvort styrkirnir verða til staðar eða hvort störfin þeirra verða til staðar. Þetta á líka við um þau fyrirtæki sem fá þjónustu frá þessum fyrirtækjum.

Þegar við erum að tala um kerfi sem reiða sig á jafna og þétta vinnu yfir langan tíma er augljóst að allar aðgerðir sem miða að breytingum verða að vera fyrirsjáanlegar yfir allan þann tíma. Eitthvað sem tekur tvö, þrjú ár í undirbúningi má ekki verða fyrir einhvers konar upphlaupi á fyrsta degi sem veldur því að allt verður óljóst í mörg ár þar á eftir. Ég myndi segja að jafnvel þó að þessu frumvarpi verði vísað frá, sem ég vona að verði gert, þá sé hreinlega sá skaði sem þegar er búið að vinna á nýsköpunarumhverfi Íslands bara í undirbúningi frumvarpsins svo mikill að það muni taka mörg ár fyrir nýsköpunarumhverfið á Íslandi að rétta úr kútnum.

Það er ekki í lagi að gera hluti á þennan hátt. Þetta er afleitt frumvarp. Hugsanlega er hægt að segja að markmiðið hafi verið gott. Hugsanlega er hægt að segja að farið hafi verið af stað með góðum hug. Ég vil trúa því að fólk sé almennt að vinna af góðum hug en niðurstaðan er afleit.

Forseti. Þessu frumvarpi verður að vísa frá áður en meiri skaði er skeður. Það er bara einfaldlega þannig. Það eru kannski einhverjar hugmyndir í frumvarpinu af hinu góða en það sem sameinar öll þau atriði er að þau eru fálmkennd og óljós og byggja á einhvers konar handaveifingum sem ég veit ekki hvort maður getur trúað að verði að veruleika þegar ekkert í frumvarpinu eða í lagaumgjörðinni tryggir að það verði að veruleika.

Nú var t.d. samþykkt hér fyrir nokkrum árum þingsályktunartillaga um stafrænar smiðjur og í mörg ár hefur staðið yfir stefnumótun um stafrænar smiðjur. Hversu erfitt er að móta stefnu um stafrænar smiðjur, herra forseti? Ekki veit ég það. Ég hefði haldið að það væri tiltölulega auðvelt samt vegna þess að þessar smiðjur eru vel þekktar, það eru tæplega 1.500 slíkar smiðjur úti um allan heim og það hlýtur að vera hægt að byggja á þeirri reynslu. En nei, í staðinn fyrir að þetta sé allt orðið skýrt, fjármögnun liggi fyrir og allir viti hvert eigi að halda í næstu skrefum, er einhverra hluta vegna búið til eitthvert handahreyfingafrumvarp þar sem ekkert ljóst og skýrt kemur fram. Þetta er ekki bara í stafrænu smiðjunum. Það er gert alls staðar með þessum frumvörpum, í gegnum gjörvallt nýsköpunarumhverfið. Ég er orðlaus.