151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, en ég og hv. þingmaður sitjum saman í efnahags- og viðskiptanefnd. Þar erum við nýbúin að afgreiða út frumvarp um Neytendastofu og breytingar á verkefnum sem heyra undir hana. Það frumvarp var gert að lögum og tillaga um að vísa því frumvarpi frá var felld af stjórnarliðum. Sami hæstv. ráðherra er ráðherra neytendamála og ráðherra nýsköpunar og það frumvarp um breytingar á Neytendastofu er sama marki brennt og þetta frumvarp, þ.e. það vantaði alla stefnu, framtíðarsýn. Fyrst er ákveðið að rífa verkefni undan Neytendastofu og setja til annarrar stofnunar þar sem ekki var mikil samlegð. Eins og hv. þingmaður bendir á í ræðu sinni eru í því frumvarpi sem við ræðum hér stofununum falin verkefni sem þær hafa kannski ekki áhuga á og þar er lítil samlegð með meginverkefnunum sem fyrir eru.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir með mér að hæstv. ráðherra, bæði neytendamála og nýsköpunar, sem er sami ráðherrann, þurfi að hugsa meira út í stefnumörkun og huga að því hvernig hlutirnir eigi að vera til lengri tíma. Það getur ekki verið markmiðið að fækka stofnunum eða leggja niður stofnanir og breyta þeim, heldur hlýtur eitthvert faglegt markmið og markmið sem stuðlar að almannahag að vera undir.