151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:16]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er allt hárrétt hjá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Hún talar í raun um það sem verið hefur ákveðin stefna í stefnuleysinu hjá núverandi stjórnvöldum, að fækka stofnunum hingað og þangað. Fjármálaeftirlitið mátti ekki vera til sem sjálfstæð stofnun heldur þurfti að færa það undir Seðlabankann. Neytendastofa mátti ekki vera til sem sjálfstæð stofnun þannig að hún er færð til og nú er verið að slátra fleiri stofnunum. Það er ekki heil brú í þessu. Þetta hefur verið algjörlega samhengislaus þvæla. Það sem er svo merkilegt við þetta er að rökstuðningurinn er alltaf einhvern veginn á þá leið að verið sé að hagræða en samt verið að gefa í, að verið sé að eyða minni peningum en samt meiri, að verið sé að gera hlutina betur þrátt fyrir að engin ummerki séu um að það sé tilfellið.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri ágætt að hafa ríkisstjórn sem hafi minni áhyggjur af því að stofnanirnar séu of margar og meiri áhyggjur af því að stofnanirnar séu undirfjármagnaðar og í mörgum tilfellum ekki fullmannaðar, að þær vanti starfsfólk, þær vanti hreinlega getu til að þjóna sínum tilgangi og að í marga áratugi hafi markvisst verið grafið undan öllu sem heitir samfélagslegir innviðir á Íslandi. Við þurfum að fara að hætta þessu. Við þurfum að snúa þessu við. Ég er ekki að segja að við þurfum að stofna 100 stofnanir í viðbót, en við þurfum alla vega að fara að byggja upp. Þetta vandamál er komið út í algera vitleysu, herra forseti.

Ég tek hjartanlega undir það með hv. þingmanni að það sem var gert við Neytendastofu var fásinna og það sem verið er að gera hér er fásinna.