151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi ríkisstjórn byrjaði á að renna Fjármálaeftirlitinu undir Seðlabankann og veikja Samkeppniseftirlitið. Þó að okkur í minni hlutanum hafi tekist að setja varnarlínur og draga aðeins úr skaðseminni í þessum tveimur aðgerðum ríkisstjórnarinnar varð þetta samt sem áður að veruleika. Og síðan er boðað í greinargerð með frumvarpinu að leggja eigi niður Neytendastofu, en hún er í einu skrefi gerð að örstofnun án þess að taka framtíðarskipan neytendamála í landinu undir eða huga að þeim með nokkrum hætti.

Síðan stendur til að renna skattrannsóknarstjóra undir Skattinn. Þannig að þetta er allt á sömu leið. Hér erum við að tala um opinberan stuðning við nýsköpun. Allir stjórnmálaflokkar hafa lagt mikla áherslu á það núna þegar við erum í þessari atvinnukreppu að við þurfum að komast upp úr henni með því að efla nýsköpun á öllum sviðum, líka í ríkisrekstri. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji þetta góðan tímapunkt til að skapa þessa óvissu, bæði sem verið hefur áður en frumvarpið kom fram og svo líka með því hvernig frumvarpið er og hvernig kastað er til höndunum, leyfi ég mér að segja. Er þetta ekki sérstaklega slæmur tímapunktur til að skapa óvissu í kerfinu þegar sjaldan hefur verið meiri þörf fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf og nú?