151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:20]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það hefur verið talað endalaust í þessari pontu um mikilvægi þess að ríkið sinni sveiflujöfnunarhlutverki. Það er nánast orðin klisja að tala um sveiflujöfnun. En þetta er alveg góð klisja og það væri mjög ágætt ef þetta væri stundað. En þegar við horfum upp á 10,4% samdrátt vegna heimsfaraldurs þegar stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar, ferðaþjónustan, lagðist svo gott sem af á einu bretti og allt hagkerfi heimsins er í molum, hefði verið góð hugmynd — þarna náði ég rétt svo að stöðva sjálfan mig í því að nota blótsyrði, herra forseti — að ríkið reyndi að jafna út þessa sveiflu, t.d. með því að það væru kannski þrefalt til fjórfalt fleiri úthlutunardagar hjá Tækniþróunarsjóði, að það væru töluvert meiri peningar lagðir til þar, að stefnt væri á að fjárfesta í nýsköpun. Að segja: Ókei, við sem samfélag horfum nú á mikla niðursveiflu en við trúum á fólkið okkar. Við treystum því að hugmyndir fólksins okkar séu góðar og við vitum að ef við leggjum áherslu á nýsköpun munum við uppskera ríkulega þegar við komum á hinn endann. Og í millitíðinni erum við alla vega búin að búa til vettvang þar sem margar hugmyndir geta þrifist. Það væri góð sveiflujöfnun. En í staðinn horfum við upp á þetta. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er þetta sem verið er að gera. Maður veltir því einmitt fyrir sér hvaða stofnun verði næst á dagskrá, til að fara undir fallöxina hjá þessari ríkisstjórn. Ég velti því fyrir mér: Verður Háskóli Íslands lagður niður næst?