151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það hefði verið einfalda leiðin. Tökum sem dæmi tillögu sem ég lagði til fyrir u.þ.b. ári síðan, í fyrsta fjáraukanum vegna faraldursins, 50 milljónir aukalega í Brothættar byggðir, sem var gríðarlega mikilvæg og allir tóku mjög vel og var hluti af breytingartillögum meiri hlutans eða breytingartillögum allrar fjárlaganefndar þegar allt kom til alls. Við þurfum nýsköpun úti um allt land. Eins og hefur komið fram hjá Tækniþróunarsjóði eru umsóknir utan höfuðborgarsvæðisins mjög fáar en þrátt fyrir það eru hlutfallslega samþykktar jafn margar umsóknir af landsbyggðinni. Vandamálið þar er í rauninni fjöldi umsókna frekar en endilega gæði þeirra miðað við umsóknir frá höfuðborgarsvæðinu.

Annað sem ég og hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir stóðum að var þingsályktunartillaga um stafrænar smiðjur sem snýst um aðgengi allra úti um allt land að stafrænum smiðjum, að þessu grunntóli fjórðu iðnbyltingarinnar. Þaðan er ég að koma, með hugmyndir að bættu nýsköpunarumhverfi sem þarf nauðsynlega að byggja upp úti um allt land. Já, augljósa leiðin hefði verið að nýta fyrst þær stofnanir eða þær leiðir sem eru þegar til og eru að skila góðum árangri, frekar en að henda þeim út og búa til eitthvað nýtt í staðinn og reyna svo að koma fjármagni á réttu staðina. Það er aukastjórnsýsla að brjóta niður og byggja upp, sérstaklega á svona tímum.