151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmanni var tíðrætt í ræðu sinni um skort á stefnumörkun og skort á eftirfylgni og mati á breytingunum. Eins og ég sé þetta fyrir mér, þá hefði, þegar farið er út í svona breytingar, þurft að vera alveg ljóst hvernig ætti að meta árangur þeirra og hvað ætti að miða við í því mati, hvernig ætti að mæla árangurinn. Mér sýnist það ekki vera gert og í síðustu setningunum í nefndaráliti hjá hv. þingmönnum, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur og Helga Hrafni Gunnarssyni, sem eru 1. minni hluti atvinnuveganefndar, sem skrifa nefndarálit um þetta frumvarp, segir, með leyfi forseta:

„Því miður hefur það lengi viljað brenna við á Íslandi að við ákvarðanatöku skortir bæði á eftirfylgni og mat á afleiðingum ákvarðana eins og bent hefur verið á í nokkrum erlendum úttektum …“

Síðan er nokkrar erlendar úttektir taldar upp og svo segir þetta, með leyfi forseta:

„Sú ákvörðun ráðherra að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð án þess að neitt komi í staðinn skapar einmitt hættu á slæmri og ómarkvissri meðferð opinbers fjármagns.“

Nú situr hv. þingmaður í hv. fjárlaganefnd og ég vil spyrja hv. þingmann út í fjárhagslegu hliðina. Hann nefndi í ræðu sinni að verkefni hefðu verið færð til án þess að þeim fylgdi fjármagn til þess að halda utan um stjórnsýsluna. Er verið að gefa í eða er verið að skera niður með þessari tilfærslu?