151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög góð spurning. Ég tók hérna fram að verkefni hafi flust til. Þeim fylgdi það fjármagn sem verkefnin fengu innan Nýsköpunarmiðstöðvar en í rauninni ekki stjórnsýslukostnaður sem var þar ofan á. Í inngangi að greinargerðinni með þessu frumvarpi er talað um að „draga úr yfirbyggingu og auka sveigjanleika þannig að opinbert fé nýtist sem best til þeirra verkefna sem það er veitt í“ með ýmsum aðgerðum hérna, „unnið verður að“ og „sett verður á fót“ og hitt og þetta. En ég spurði ítrekað: Hversu mikinn kostnað er verið að spara við það að draga úr yfirbyggingu? Það er ekkert samasemmerki í svörunum, stjórnvöld eru vissulega búin að bæta fullt af peningum í nýsköpun, t.d. með fjáraukum til að bregðast við faraldrinum, en maður sér hvergi hvaða hluti af því er sparnaðurinn vegna yfirbyggingar Nýsköpunarmiðstöðvar heldur er bara sagt: Við bættum við rosalega mikið af peningum. Eru það allt nýir peningar? Er hluti af því yfirbyggingarpeningarnir? Ég hef ekki hugmynd. Þeirri spurningu er aldrei svarað, enda er það mjög augljóst, eins og ég lýsti í ræðu minni, að þegar verkefni sem eru með stjórnsýslukostnað eru flutt frá einni stofnun yfir til annarrar þá hlýtur að fylgja aukinn stjórnsýslukostnaður hjá nýju stofnuninni, eða einkafyrirtæki ef um það er að ræða, skiptir ekki máli. Þar er sami kostnaður sem fylgir varðandi bókhald og ýmislegt svoleiðis. Enginn hefur svarað þeirri einföldu spurningu: Hvernig er þetta betra fyrirkomulag en það sem var? Hvernig er það ódýrara? Hvernig er það skilvirkara? Því er ekki svarað. Það er það sem er slæmt.