151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég gat ekki látið hjá líða að koma hingað upp vegna ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Við erum greinilega sammála um mjög margt í þessu enda, eins og hv. þingmaður kom inn á í andsvari sínu við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, fluttum við saman mál í upphafi þessa kjörtímabils varðandi stafrænar smiðjur. Í því var kveðið á um að skapa ætti ákveðna framtíðarsýn og framtíðargrunn fyrir smiðjurnar til að starfa á. Stafræn smiðja er ótrúlega magnað fyrirbæri eins og við höfum rætt hér áður. Það er staður þar sem maður getur í rauninni komið og gert hvað sem mann langar, hvað sem manni dettur í hug. Það er hægt að finna einhverja leið til að framkvæma það í stafrænni smiðju. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að stafrænar smiðjur verði efldar þar sem þær eru og einnig tryggður aðgangur að þeim víðar um landið. Það var hugmyndin með þingmáli okkar á sínum tíma sem var samþykkt af öllum þingheimi. Enn þá bólar ekki á áætlun eins og óskað var eftir og eins og þingheimur samþykkti, og því miður er merki þess heldur ekki að finna í þessu frumvarpi þótt vissulega sé aukið fjármagn til smiðjanna á þessu ári a.m.k., og að mér skilst til næstu þriggja ára.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvort hann hefði ekki viljað sjá þarna skýrari sýn gagnvart starfsemi smiðjanna. Hefði ekki átt að nýta tækifærið til að festa smiðjurnar í sessi til framtíðar?