151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að leiðrétta eitt, það var Nýsköpunarmiðstöð sem var nefnd einu sinni í nýsköpunarstefnunni, ég var aðeins að rugla þarna. Það er út af fyrir sig mjög merkilegt í rauninni.

Þegar verið er að vinna að því að búa til eitthvað nýtt þá viljum við fara í smávegis rannsóknarvinnu fyrst. Hún þarf ekki að vera allt of nákvæm, má vera í stórum dráttum og leggja a.m.k. stóru línurnar. Það er ekkert svoleiðis hér sem við erum að glíma við. Við fáum ekki, þegar ráðherra tilkynnir um niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar, hverjar stóru línurnar eru í framhaldinu, þar sem síðan væri hægt að teikna inn á milli möguleg smáatriði. Við erum ekki einu sinni með það, grundvallarvinna hefur ekki einu sinni verið unnin. Eins og ég segi, Nýsköpunarmiðstöð er einfaldlega hent út um gluggann og svo farið að hugsa: Hvað eigum við þá að gera? Það er rosalega óábyrg afstaða, eins og hv. þingmaður nefnir, áður en þingið hefur sagt skoðun sína á því hvort það er góð hugmynd eða ekki.

Það er einkenni meirihlutamenningarinnar hérna á þingi og dæmi um það hvernig þingið er stimpilstofnun. Ríkisstjórnin var búin að ákveða þetta og ákveða það fyrir sína þingflokka sem eru með meiri hluta á þingi og þeir skulu bara framfylgja ákvörðuninni sama hvort hún er góð hugmynd eða ekki. Við reddum því hvernig við útskýrum að þetta sé í raun og veru rétt niðurstaða, þ.e. nægilega rétt samkvæmt meiri hlutanum til að geta kyngt því alla vega. Við erum í hugmyndafræðilegum vanda þar sem rökin skipta ekki máli heldur geðþóttinn.