151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég skrifa undir nefndarálit 1. minni hluta atvinnuveganefndar við þetta mál ásamt Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, sem gerði ágæta grein fyrir afstöðu okkar áðan. Ég ætla að byrja á því að segja það jákvæða sem ég hef að segja sem er um störf nefndarinnar og störf meiri hlutans sér í lagi í þessu máli. Þótt það komi nú alveg fyrir atvinnuveganefnd eins og aðrar nefndir þingsins að meiri hlutinn taki kannski valdi sínu sem aðeins of sjálfsögðum hlut var það alls ekki tilfellið við meðferð þessa máls og reyndar til stakrar fyrirmyndar hvernig meiri hlutinn stóð að því að hafa minni hlutann með sér í umræðum um málið. Formaður nefndarinnar sér í lagi lagði sig allan fram við að taka inn þau sjónarmið sem þau töldu mögulegt að taka inn og að bæta málið á þann hátt sem mögulegt var. Þó eru takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að bæta þetta mál án þess að byrja einfaldlega upp á nýtt. Þar er ekki við meiri hluta atvinnuveganefndar að sakast heldur vitaskuld flutningsmann frumvarpsins sem er hæstv. ráðherra.

Það kom frekar snemma í ljós við meðferð málsins að það var ekki mjög skýr og greinileg hugsun á bak við niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Og eftir því sem fundunum fjölgaði um málið varð sífellt ljósara, þegar spurt var út í greiningarvinnu eða þess háttar eða hvaða forsendur lægju að baki þessari ákvörðun og ákvörðunum sem komu í kjölfarið, að greiningar voru ýmist ekki til staðar eða þá að þær voru ekki í slíku formi að maður myndi sjálfur, alla vega ekki sá sem hér stendur, fara í svo stórbrotnar breytingar á þeim forsendum einum og sér. Það var einfaldlega ekki nógu mikið greint.

Nú þarf vonandi ekki að tíunda hversu viðkvæmt það er að gera stór mistök í nýsköpunarumhverfi Íslands á þessum tímapunkti í þróun Covid-19 heimsfaraldursins og þeirrar viðspyrnu sem við viljum öll að þjóðríkið okkar, Ísland, nái. Nýsköpun spilar þar lykilhlutverk og það er mikilvægt að vel sé staðið að verki. Og það gerði meiri hluti atvinnuveganefndar að mínu mati upp að því marki sem það er yfir höfuð mögulegt. En eftir stendur inntak málsins sjálfs. Það er gölluð hugsun í frumvarpinu sjálfu sem er sú hver byrjunarpunkturinn var. Nú hef ég engar heimildir fyrir því hvar sú hugmynd fæddist nákvæmlega að fara í þessar aðgerðir. En tilfinningin sem ég fæ í þessu máli er að einhverjir sérfræðingar hafi hist, sem vel má vera að þekki mjög vel til, sem hafi verið þeirrar skoðunar, eins og sumir eru, að Nýsköpunarmiðstöð Íslands bæri að leggja niður. Það hafi verið inntakið. Það hafi verið ákveðið skilyrði fyrir því að hægt væri að hugsa um eitthvað annað og síðan var farið í það að velta fyrir sér hvað gera mætti í staðinn. Úr því hafi komið þetta frumvarp, væntanlega eftir ýmsa vinnu sem ég ætla ekki að gera lítið úr.

Þegar inntakið er rangt er hætt við að það sem fylgir í kjölfarið verði heldur órökrétt. Það leiðir mig yfir í næsta punkt sem mig langar að ræða sérstaklega. Það er starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þegar stofnanir eru lagðar niður eða gerðar verulegar breytingar á þeim þá er eðlilegt og vel þekkt og ekkert athugavert við það að starfsfólk hugi að starfsumhverfi sínu, starfsöryggi og þess háttar. En í þessu máli var mjög skýrt af öllum samtölum við starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands að það var ekki það fyrsta sem þau höfðu áhyggjur af, heldur af því að ekki væri hlustað á þau þegar kæmi að gagnrýni á nýsköpunarumhverfið á Íslandi. Það er nefnilega ýmiss konar gagnrýni á nýsköpunarumhverfið á Íslandi, þar á meðal á starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Samkeppni stofnunarinnar við hennar eigin skjólstæðinga er eitt dæmi. Starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar hefði ekki verið bara til viðtals heldur hefði verið hægt að nýta þekkingu þess á frumstigum til að finna einhverja aðra lausn sem ekki fæli sjálfkrafa í sér niðurlagningu stofnunarinnar. En samráðið var lítið sem ekkert og viðhorf ráðuneytisins virðist hafa verið að það eina sem þetta blessaða starfsfólk hugsaði um væri eigið starfsöryggi. Og þar missti það af tækifæri til að nýta þá reynslu sem var til staðar og er að einhverju leyti enn þá til staðar hjá stofnuninni strax á frumstigum. Það hefði verið skynsamlegt og ábyrgt, virðulegi forseti, og það hefði líka verið hluti af heilsteyptri greiningarvinnu. En það var ekki gert, virðulegi forseti.

Þegar kemur að því að skoða hvernig frumvarpið varð síðan í kjölfarið var áberandi gagnrýni frá umsagnaraðilum og gestum á það atriði að í greinargerð fælust ýmsar ágætar hugmyndir eins og stuðningur við nýsköpun á landsbyggðinni sem ekki finnast í frumvarpstextanum sjálfum. Nú hyggst meiri hlutinn laga þetta að einhverju leyti og er það vel, en það segir svolítið um það hvernig þetta mál hefur verið hugsað að mínu mati vegna þess að þetta er annar liður sem hefur verið gagnrýndur í gegnum tíðina, þ.e. að fólk á landsbyggðinni hafi í raun ekki sama aðgang að nýsköpunarumhverfinu og við í Reykjavík. Einnig kom fram gagnrýni á að engan veginn væri ljóst hvernig því markmiði ætti að ná betur með þessu frumvarpi en með fyrra kerfi. Svörin við því eru því miður svolítið þannig að það segir mikið um hugarfarið en það er lítið um raunverulegar lausnir.

Þá er einnig vert að minnast á stuðning á fyrstu stigum, gjaldfrjálsa ráðgjöf sem er til staðar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Að hvaða leyti hún er enn þá til eftir allt bröltið upp á síðkastið vegna þessa frumvarps veit ég ekki. Það er að mínu mati algjört grundvallaratriði að fólk sem fær hugmynd og ætlar að fara að skapa eitthvað nýtt þarf að hafa gjaldfrjálsan aðgang að einhvers konar ráðgjöf og leiðsögn, þótt ekki væri nema hvernig stofna eigi fyrirtæki og hvernig sækja eigi um styrki og þess háttar. Hugmyndin í frumvarpinu var sú að leggja þetta af vegna þess að það eru einkaaðilar á markaðnum. Og það er dagsatt, það eru aðilar á einkamarkaðnum sem veita þessa ráðgjöf gegn gjaldi. En grundvallarmisskilningurinn í þeirri nálgun er sá að nýsköpunarverkefni hafi fjármagn á fyrstu stigum til þess á meðan verkefnið er enn þá kannski bara hugmynd. Það finnst mér lýsa áhugaverðu hugarfari, verð ég að segja.

Mér finnst það ofboðslega skrýtin tillaga að þegar fólk fær hugmynd, áður en það veit einu sinni hvort hún er yfir höfuð góð í efnahagslegum skilningi eða hvernig er hægt að nýta hana og áður en það veit hvaða styrkir eru í boði, þá ætti viðkomandi að fara að leggja út fé til að komast að slíkum hlutum, til þess að vita hvar hægt sé að sækja um og hvernig eigi að fara að því. Þetta er kannski ekkert mál fyrir fólk sem ekki er vant því að hafa ekki fé á milli handanna. En, virðulegi forseti, við viljum hvorki að nýsköpun á Íslandi sé algerlega háð því að fólk hafi peninga á milli handanna né að það sé endilega háskólamenntað. Ég segi kannski meira um það síðar.

Meiri hlutinn bregst við þessu með því að koma á fót því sem mig minnir að heiti nýsköpunargátt, rafræn lausn, sem er til þess fallin að koma til móts við þetta og veita þannig stuðning algerlega á frumstigum. Ég er ekkert endilega á móti þeirri hugmynd, kannski er hún bara góð, kannski er jafnvel hægt að útfæra hana betur en það sem fyrir var, en við vitum það ekki. Við vitum að það var og er eftirspurn eftir því sem fyrir var. Við vitum að það verður fjarlægt samkvæmt frumvarpinu og við vitum að þetta verður sett í staðinn, sem viðbrögð við þeirri ákvörðun í frumvarpinu. En ég efast stórlega um það að ef ekki hefði verið fyrir þetta millistig, að afnema þjónustuna, gjaldfrjálsu leiðsögnina í upphafi, þá hefði nýsköpunargátt verið það sem ráðuneytið myndi stinga upp á. Ég efast stórlega um það, ef ég á að segja alveg eins og er. Og þótt það sé eflaust ágætishugmynd þá er hún samt plástur, með fullri virðingu fyrir meiri hlutanum. Þetta er tilraun til að reyna að koma í veg fyrir skaðlegustu áhrifin af því að fjarlægja þennan gjaldfrjálsa stuðningi og leiðsögn í upphafi. Þetta er bara dæmi um það sem hefur gengið á í þessu máli.

Mig langar einnig að taka undir minnihlutaálit 2. minni hluta sem segir sömu sögu. Ég efast um að það séu mörg okkar sem þræti fyrir þá sögu sem ég er að lýsa. En ég segi það líka að ég hefði viljað óska þess að hægt væri að styðja þetta frumvarp. Ég vildi óska þess að ég gæti stutt þetta frumvarp, en það er einfaldlega grundvallað á röngu inntaki og restin er í takti við það.

Þá um tæknisetur sem sett verður á fót. Það er hugmynd sem ég er í sjálfu sér ekki á móti. Það hafa samt komið fram áhyggjur um að rekstrarform þessa tækniseturs sé óheppilegt. Þá vík ég aftur að því ástandi sem við erum í nákvæmlega núna á þessum tímapunkti, í Covid-19 heimsfaraldrinum og efnahagslegum áhrifum hans. Með því að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og setja á fót þetta tæknisetur kemur óhjákvæmilega upp millibilsástand, og er í dag, akkúrat á þeim tíma þar sem við þurfum að hafa skýrt verklag fyrir nýsköpunaraðila vegna þess að þeir aðilar þurfa að komast inn í stuðningsfyrirkomulagið mjög bráðlega. Ég óttast að svo verði ekki en ég vona auðvitað að þetta gangi vel. Ég vona að þetta sé allt rangt, allar þessar áhyggjur. En ég hef voða litla trú á því ef ég á að segja alveg eins og er. Ég held því miður að þetta sé rétt hjá mér og þeim sem gagnrýna þetta frumvarp. Það er þó gott hvað það er mikill samhugur í orði, í það minnsta, um að styrkja nýsköpun á Íslandi. Það er samhugur um það. Það er meira að segja samhugur um að það eigi að ríkisstyrkja nýsköpun. En hvers vegna getum við þá ekki unnið meira saman að því? Hvers vegna má ekki greiningarvinnan bara vera góð?

Ég verð líka að segja, eins og ég nefndi áðan, að þótt ýmis gagnrýni hafi komið fram í gegnum tíðina á fyrirkomulag nýsköpunarumhverfisins á Íslandi, þá hef ég ekki enn þá rekist á neitt vandamál sem krefst þess að Nýsköpunarmiðstöð sé lögð niður. Það er alveg hægt að breyta stofnunum, það er hægt að breyta fyrirkomulagi, það er hægt að breyta upphæðum. Þar kem ég að lokapunkti mínum sem mér þykir lýsa viðhorfinu því miður allt of vel. Í aðra röndina stærir ríkisstjórnin sig af því að setja milljarða í nýsköpunarmál, nýsköpun af einhverju tagi, gott ef það er satt og rétt. Gott ef maður skilur það rétt, það er stundum sem maður skilur ekki alveg rétt það sem er sagt hérna þótt það sé á mjög skýrri íslensku. Hins vegar er hluti af gulrótinni í þessu máli sá, að sögn, að spara einhverja peninga með þessari niðurlagningu. Við hlýddum á ræðu áðan, betri en þá sem ég er að flytja, um að það viðhorf á ekki að stýra ferðinni. Fyrir utan hvað það er órökrétt að ætla að það verði ekki einhver kostnaður af þessu sem ekki er enn þá kominn í ljós. Sem dæmi um það sem greinilega var ekkert hugsað út í við gerð frumvarpsins eða framlagningu þess, eru tækin sem notuð eru í rannsóknir í dag, mjög stór tæki sem taka mjög mikið pláss og hefði þurft að færa niður í Vatnsmýrina, sennilega dýrasta leigusvæði á landinu, finnst mér líklegt, án þess að ég hafi flett upp tölunum. Það sýnir vel hvað þetta er illa hugsað, finnst mér. Var ekki gert ráð fyrir því? Átti það ekki að kosta eitthvað? Ætti það ekki að vera eitthvert vesen? Auðvitað er það vesen, virðulegur forseti, fullt af þessu er vesen og kostnaðarsamt.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég vona að þetta sé rangt sem við gagnrýnendur þessa máls höldum fram, en ég óttast að svo sé ekki. Ég hygg að ef þetta gengur vel þá verði það að verulega stórum hluta heppni vegna þess að við erum jú að ganga inn í aðstæður núna sem eru ófyrirsjáanlegar í eðli sínu, þ.e. hvar við stöndum í heimsfaraldrinum og sömuleiðis hvaða áhrif hann mun hafa í hagkerfinu og hvað varðar nýsköpun þegar þessum faraldri linnir.

Alveg í lokin vil ég nefna eitt sem bent hefur verið á og gæti reyndar misskilist í máli mínu, og bendi í því samhengi á stofnun sem heitir Space Iceland, sem skilaði inn mjög ítarlegri umsögn upp á fleiri tugi blaðsíðna. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið hana alla spjaldanna á milli, aðeins gluggað í hana. Það er sá misskilningur að nýsköpun eigi sér stað bara af sjálfu sér eða að nýsköpunarfyrirkomulagið sé til staðar til að mæta eftirspurn sem þegar er til staðar. Það er misskilningur, virðulegi forseti. Fyrirkomulagið sjálft og hvatarnir sem það býr til, búa til eftirspurnina. Síðast en ekki síst verðum við að muna að nýsköpun er fjárfesting, og þetta held ég að sé enginn ágreiningur um. Við eigum ekki að líta á fjárfestingar, sem við getum verið þokkalega viss um að margborgi sig með tímanum, sem hreinan kostnað. Það er svolítið viðhorfið sem maður skynjar í frumvarpinu þegar á að fara að auka skilvirkni með því að leggja niður einhverja stofnun og setja á fót aðra, reyndar fyrirtæki, og það sé til þess að spara einhverja peninga.

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er að það sé nógu mikill stuðningur. Og það er allt í lagi að sá stuðningur sé úr ríkissjóði. Það er bara allt í lagi. Þetta eru fjárfestingar og núna er tíminn til að leggjast í þær. Núna er tíminn til að gera meira og sýna meiri metnað í málaflokknum en sést í frumvarpinu sem við erum hér að fjalla um.

Nú ætla ég að reyna að hætta lyginni um að ég sé að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, og standa við það. En ég legg að lokum til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.