151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli tel ég einsýnt að svo verði í það minnsta á næstunni. Akkúrat á þessum tímapunkti, þegar við þurfum að fá hugmyndir í nýtingu, hugmyndir sem eru í samfélaginu, frá fólki sem er kannski á milli atvinnutækifæra — ekki með sýnileg atvinnutækifæri eða sér fram á að verða atvinnulaust í einhvern tíma — en er með hugmyndir sem gætu orðið að einhverju. Frá fólki sem getur kannski eða þorir að taka áhættu núna sem það annars myndi ekki taka, bæði vegna þess að það hefur meiri tíma til þess eða vegna þess að aðstæður hafa breyst skyndilega eða vegna þess að það getur það með stuðningi. Það er fólkið sem við þurfum að fá fram til þess að nýta þessar hugmyndir sem eru alls konar, ekki bara í tæknigeiranum heldur úti um allar trissur eins og við þekkjum.

Það er þó gott við kerfið sem við höfum núna að hægt er að ganga að því. Það er hægt að spyrja einhvern sem maður þekkir, eða eitthvert fyrirtæki sem hefur fengið stuðning, hverjir séu kostirnir og gallarnir við að tala við Nýsköpunarmiðstöð, hverjar séu líkurnar á raunverulegum stuðningi o.s.frv. Þetta verður ekki hægt núna, alla vega ekki að mínu mati, í að minnsta kosti eitt og hálft ár, einfaldlega vegna þess að það er verið að skipta um þessar stofnanir og reynsla skjólstæðinganna af kerfinu er í reynd engin.

Segjum að þetta gangi mjög vel, hvert á einstaklingur þá að leita til að skilja kerfið sem við erum að fara að setja upp? Jafnvel þó að þetta einfaldi eitthvað fyrir ríkissjóð eða fyrir yfirvöld tel ég algjörlega einsýnt að þetta muni flækja málin verulega fyrir skjólstæðingana. Það er þar sem við þurfum einföldunina. Þetta þarf ekki að vera einfaldara í ráðuneyti hæstv. fjármálaráðherra, þótt auðvitað sé ekki verra að hafa það einfaldara þar. Þetta þarf að vera einfalt fyrir skjólstæðingana. Það hefur alveg gleymst hér.