151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann þekki rit sem til er í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sem eru leiðbeiningar fyrir ráðuneyti um hvernig færa á verkefni á milli stofnana, hvernig á að sameina stofnanir og leggja þær niður, þ.e. hvaða skref á að taka. Þar er nefnilega talað um að fyrsta skrefið ætti að vera frumathugun áður en ákvörðun er tekin. Byrja ætti á því að fjalla um stöðuna og móta framtíðarsýnina, setja skýr markmið með breytingunni og velja síðan viðmiðanir, skoða valkosti, greina hindranir og fjalla um álitamál. Og síðast en ekki síst ætti að hrinda breytingum hratt í framkvæmd til að óvissan hangi ekki yfir fólki. Manni dettur í hug að hæstv. ráðherra nýsköpunarmála og neytendamála hafi ekki flett þessum bæklingi áður en farið var í að færa verkefni frá Neytendastofu og gera þá breytingu varðandi Nýsköpunarmiðstöð sem við ræðum hér. Í þessu riti er sérstök áhersla lögð á að huga að mannlega þættinum. Hv. þingmaður komi einmitt inn á mannlega þáttinn og hvernig nýta hefði mátt starfsmennina í breytingarferlinu. Telur hv. þingmaður að hæstv. ráðherra hafi flett þessum leiðbeiningabæklingi sem til er í fjármála- og efnahagsráðuneytinu?