151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvort ráðherra hefur flett því upp. En miðað við innihaldslýsingu hv. þingmanns á því að það beri að gera einhvers konar greiningu til að byrja með og hrinda síðan breytingunni hratt í framkvæmd, og miðað við reynslu mína af því að skoða þetta mál þá get ég svo sem ímyndað mér að ráðherra hafi skoðað þetta, en þá kannski misskilið tilganginn með því og talið að greiningin snerist um að tikka í boxið og hafa einhver skjöl sem fjalla um ákvörðunina. Þau eru vissulega til en þau eru ekki greining sem leiðir af sér þessa niðurstöðu. Það er alveg til eitthvað skrásett sem fólki finnst vera að núverandi nýsköpunarumhverfi. Það sem vantar alltaf er: Hvernig komumst við frá þeim vandamálum yfir í þessa tilteknu lausn? Það er skrefið sem vantar alltaf. Þannig að kannski misskildi hæstv. ráðherra hvað fælist í þessari greiningu eða taldi að það væri eitthvert box sem maður tikkaði bara í og kláraði þá málið. En auðvitað er tilgangur með þessu.

Varðandi það að hrinda breytingunum hratt í framkvæmd, sem mér finnst rökrétt, verð ég að viðurkenna að ég skellti aðeins upp úr í þingsal áðan og vona að hv. þingmaður hafi ekki skilið það þannig að ég væri að hlæja að ræðu hennar. Ég hló vegna þess að þetta gerist vissulega hratt en þó klunnalega hratt að því leyti að verið er að ráðast í þessar breytingar hjá framkvæmdarvaldinu áður en búið er setja lögin, í þokkabót með frumvarpi sem þarf og fékk þokkalega mikla umfjöllun í þinginu. Þannig að hugsunin hefur þá væntanlega verið sú að til að gera þetta hratt væri best að byrja og athuga síðan hvort þetta væri góð hugmynd. En það er fullmikið af hinu góða, hygg ég, virðulegi forseti. Ég segi þetta auðvitað með þeim fyrirvara að ég veit það ekki. En mér þykja þessir áherslupunktar áhugaverðir ef ég máta þá við það sem ég þekki af þessu máli.