151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður þekkir hefur aðdragandinn að þessari breytingu, umræðan um hana og upptakturinn, valdið óöryggistilfinningu og jafnvel kergju meðal þeirra sem unnið hafa að nýsköpunarmálum, a.m.k. úti um landið. Og þegar verið er að fara í svona breytingar stendur í leiðbeiningabæklingnum, sem mér finnst bara nokkuð góður og þess virði að fletta og fara eftir þegar ráðist er í svona breytingar, hvort sem það er nú að sameina stofnanir eða færa verkefni eða leggja stofnanir niður, að það sé svo mikilvægt að auka samstöðu starfsfólks með breytingunum og vekja sem mestan áhuga á framtíðarsýninni og þeim markmiðum sem stefnt er að. Þarna tel ég að sé sannarlega pottur brotinn. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir það með mér, og eins hvort þetta sé ekki einstaklega slæmur tími til að róta upp í þessu skipulagi öllu saman nú þegar við þurfum alveg sérstaklega mikið á því að halda að það verði skilvirkni í nýsköpunarverkefnum. Að ekki verði töf vegna einhvers millibilsástands og óvissuástands.