151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sorglega við þá ábendingu er að starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar sagði svo skýrt hvað það væri viljugt til þess að miðla af reynslu sinni. Það er það sem er leiðinlegt við að horfa upp á þetta.

Ef við tölum um að líta á mannlega þáttinn, sem hv. þingmaður spurði út í, þá er eins og að engum uppi í ráðuneyti hafi dottið í hug að fólk sem ynni þarna hugsaði um eitthvað annað en eigið starfsöryggi, og það var áreiðanlega eitthvað brugðist við áhyggjum af slíku, sem er allt í lagi. Það er allt í lagi að reyna að leggja sig fram við að fólk haldi starfi sínu. Það er bara svo pínlegt þegar ákallið snerist um að hlusta á þetta fólk varðandi lausnir í nýsköpunarmálum, það sem þetta fólk er sérfræðingar í og veit mætavel að kerfið er ekki fullkomið, það veit mætavel að það er ýmislegt sem má bæta í Nýsköpunarmiðstöð Íslands vegna þess að það hefur lagt það til áður. En það mátti ekki nýta þetta.

Þarna held ég einmitt að mannlegi þátturinn hafi gleymst. Ef ráðherra eða fólkið sem bjó til þetta frumvarp hefði hugsað fyrst um starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar sem eitthvað annað — nú er ég kannski ósanngjarn — og eitthvað meira en tölur á blaði sem þyrfti einhvern veginn að díla við frekar en að þarna væru manneskjur; að hver einasta tala þarna táknaði manneskju sem ynni í umhverfinu, hefði skoðanir, reynslu og þekkingu og einmitt eldmóð og áhuga á málefninu … Ef það er eitthvað sem við hljótum að vera sammála um að sé ákveðið lykilatriði í nýsköpun er það alla vega einhver tegund af eldmóði og einhver tegund af áhuga á viðfangsefninu. Það fer mjög vel saman, nýsköpun, eldmóður og áhugi. Ég hefði haldið að einmitt með því að líta til mannlega þáttarins hefði verið hægt að nýta aðstæðurnar mun betur. En það var ekki gert og það er miður.