151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:53]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, það er kannski erfitt að fullyrða um hvað sé fullnægjandi greiningarvinna, ég er sammála því. En málið er það að ég hef ekki orðið var við nein svör um einhverja greiningarvinnu, svo að það sé sagt. Á þessum löngu fundum með þessum miklu gestakomum og með öllu því tali og þeim nýyrðum sem maður fékk að heyra í haust, alls konar orð yfir eitthvað sem er ekki til en gæti heitið alveg svakalega fallegum nöfnum, upplifir maður að staðan er nánast sú sama í dag. Samt sem áður, eins og ég tók fram áðan, þá er í breytingartillögum meiri hlutans stigið skref í þá átt að bæta málið. En það er í rauninni erfitt að bæta eitthvað sem er í smíðum þegar grindin hefur ekki verið smíðuð áður. Sú sparslvinna sem ég talaði um áðan er kannski alveg til ónýtis vegna þess að það vantar grindina á bak við.