151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:57]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti, ég. Þetta eru góðar spurningar sem ég get ekki svarað í sambandi við fjármagnið. Hv. þingmaður er fulltrúi í fjárlaganefnd og ég hef oft heyrt hv. þingmann kalla eftir skýrleika í flæði fjármagns í hinum ýmsum málum. Það hlýtur að eiga algerlega við rök að styðjast í þessu máli, í þeirri greiningarvinnu sem er ekki til. Þess vegna tek ég undir með þingmanninum. Ég gat þess reyndar ekki áðan, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherra talaði mikið um að þetta mál myndi virka vel fyrir landsbyggðina. Þeir gestir af landsbyggðinni sem hafa komið fyrir nefndina kannast ekki við það, koma ekki auga á það í þessu frumvarpi og finna hvorki rök né greiningu á því hvað á að koma landsbyggðinni til góða og tala um að fyrir hafi verið til verkfæri eða aðstæður til þess að byggja á úti á landi svo að það mætti ganga betur á landsbyggðinni. Þar spilar fjármagn örugglega sterkt inn í því að það eru nú peningarnir sem gilda í því að framkvæma hlutina að flestu leyti í okkar lífi.