151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[19:01]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir þetta andsvar. Ég man eftir þessu máli um færslu Neytendastofu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og þeim áhyggjum sem voru þeim megin um eitthvað sem tilheyrði ekki akkúrat þeirri ágætu stofnun. Ég er náttúrlega enginn sérfræðingur í snuðum, örugglega ekki frekar en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, en mér finnst þetta ágætisspurning vegna þess að það má kannski segja að þingmaðurinn sé að vísa til þess að í þeirri vinnu hafi ekki verið vandað nógu vel til verka. Tek ég heils hugar undir það. Ég man eftir því að talað var um það á þeim tímapunkti. Öll svona vinna, færsla á milli fyrirtækja eða stofnana, má ekki vera bara af því bara heldur þarf hún að vera af einhverri sérstakri ástæðu og færast til þeirra sem málið heyrir undir. Ég held að ég geti í raun og veru ekki svarað því öðruvísi.