151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[19:05]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum aftur fyrir andsvarið og tek undir það að nýsköpun er okkur sérstaklega þörf á þessum tímum. Þess vegna hefði verið betra að bíða með allar breytingar þangað til við værum komin á sléttari sjó, eins og ég sagði í ræðu minni, og ekki hrófla við fyrirkomulaginu eins og er gert í þessu máli sem er, eins og margoft hefur komið fram, algjörlega vanbúið allri vinnu sem getur sannfært mann um að þetta sé í lagi. Eins og kom fram í spurningu hv. þingmanns um landsbyggðina og eins og ég sagði áðan þá hefði vel verið hægt að styrkja t.d. sóknaráætlun landsbyggðarinnar og fleiri atriði sem eru til staðar úti á landi sem er reynsla fyrir, til að nota þau verkfæri sem fyrir eru og setja fjármagn í það til að fá kraft, fá hjólin til að snúast. Það er alveg á kristaltæru í þessari vinnu að allir þeir gestir, eða ég segi flestir, sem komu sem fulltrúar landsbyggðarinnar fundu ekki neinn grundvöll fyrir því eða neitt í þessu máli sem landsbyggðin myndi hagnast á. Þannig að ég tek bara undir það hjá hv. þingmanni að styrking á þessum sjóð hefði sennilega verið rétta handtakið akkúrat núna.