151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[19:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru tvö atriði í ræðu hv. þingmanns sem mig langar til að vekja athygli á. Í fyrsta lagi segir hv. þingmaður að þegar verið sé að setja upp svona áætlun, svona stefnu, svona breytingar, verði í rauninni að setja upp markmið og mælikvarða og ákveða hvert markmiðið með breytingunum er til þess, eins og hv. þingmaður orðaði það, að hægt sé að líta til baka og skoða hvort vel tókst til. Um það fjalla t.d. lög um opinber fjármál, þ.e. hvernig stefnumótun stjórnvalda á að vera grundvöllur undir allri ákvarðanatöku.

Í umræðunni höfum við talað aðeins um að augljóst sé að þegar ákvörðun var tekin um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð hafi ekki verið nein áætlun til um hvað ætti að koma í staðinn, enda var líka lögð fram fjármálaáætlun síðastliðið haust þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Unnið er að endurskipulagningu á stofnanakerfi nýsköpunar, þar á meðal starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og beinast aðgerðir að því að hluta verkefna stofnunarinnar verði fundinn farvegur undir nýju rekstrarformi, ýmist á vegum hins opinbera eða á vegum einkaaðila.“

Í fjármálaáætlun eru í raun ekkert mikið meiri lýsingar á því hvað eigi að gera, engin stefnumörkun um hvort hægt sé að sjá hvort það fjármagn sem úthlutað er í fjármálaáætlun til verkefnis nái markmiðum sem eiga að koma fram í fjármálaáætlun. Það er áhugavert að skoða fjármálaáætlun sem ákveðna staðfestingu á því að stjórnvöld höfðu ekki hugmynd um hvað þau ætluðu að gera í staðinn fyrir Nýsköpunarmiðstöð þegar þau ákváðu að leggja hana niður. Mig langaði til að reifa þennan punkt aðeins meira með hv. þingmanni.