151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[19:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við fáum bráðum nýja fjármálaáætlun og þá getum við flett því upp hvernig fjallað er um þessi mál. En sannarlega hljómar það sem hv. þingmaður las hér upp afskaplega loðið. Það hefði þurft að vera skýrara. Ég er ekki á móti því að stofnanastrúktúrinn sé skoðaður og menn leiti logandi ljósi leiða til að reka hlutina með hagkvæmari hætti en líka til að ná háleitari markmiðum og betri árangri. Þá verður líka að haga hlutunum með öðrum hætti en gert var til að undirbyggja þá breytingu sem við ræðum hér og fleiri breytingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að. Þegar við gerum svona breytingu skiptir máli að við vitum nákvæmlega hvert við ætlum að stefna og að við getum á fyrir fram ákveðnum tímapunkti tekið stöðuna og skoðað viðmiðin sem við höfðum sett okkur þegar lagt var af stað. Við ætluðum að ná ákveðnum viðmiðum og markmiðum og þegar við tökum stöðuna, þegar reynslan er komin á starfsemina, er gott að vera með viðmið sem við getum mælt og notað til þess að sjá hvort við höfum náð árangri, hvort við þurfum að ganga lengra eða fara til baka. Sú hugsun, sem er rétt hjá hv. þingmanni að var undirtónninn með lögum um opinber fjármál, á ekki við þegar farið er í slíka vinnu sem það frumvarp sem við ræðum hér er.