151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[19:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hitt atriðið sem kom fram í ræðu hv. þingmanns var einmitt að framkvæmdarvaldið starfar í umboði þingsins. Það tengist fyrra atriðinu um það hvernig við erum að reyna að koma okkur í dálítið fyrirsjáanlegra fyrirkomulag með það hvernig við förum með fjárheimildir skattgreiðenda og ríkisins. Það að ráðherra taki þá einhliða ákvörðun að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð, án fyrirliggjandi stefnu um viðeigandi viðbrögð við því ástandi sem þar var, er einmitt alls ekki í anda laga um opinber fjármál sem hv. þingmaður vísar til né heldur þess grundvallaratriðis að framkvæmdarvaldið starfar í umboði þingsins, að ráðherrar fari eftir lögum og stefnum sem samþykkt er af þinginu en ekki öfugt, að þegar ráðherrar hafa hugmyndir um hvað þurfi að gera, sem er ekki innan þeirra markmiða sem þegar eru í gildi, þurfi þeir áður en ákvarðanir eru teknar að koma til þingsins, spyrja þingið og rökstyðja fyrir þinginu að breytingar á við þessa séu góð hugmynd. Annars lendum við í þeirri hugmyndafræðilegu holu sem virðist vera hér um að leggja eigi niður stofnun af því að það er hugmyndafræðilega viðeigandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að gera það fyrir kosningar til að hann geti montað sig af því að hafa minnkað báknið. Á sama tíma var búið til einkahlutafélag sem er undanþegið upplýsingalögum og er í rauninni ekkert öðruvísi þegar allt kemur til alls. Og hvað þá? Hvers konar ríkisstjórn eða framkvæmdarvald erum við þá með sem hagar sér svona?