151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[19:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var einmitt hugmyndin með fjármálaáætluninni sem fjallar um málasviðin — sem mig minnir að séu 35 en ég man það samt ekki, þau eru 30 og eitthvað — að taka ætti stefnuna fyrir málasviðið og setja niður vörður um hvað ætti að gera á hverju málasviði. Þá hefðum við þingmenn sem erum með fjárveitingavaldið líka möguleika á að meta hvort fjármunirnir sem ætlaðir væru í verkefnið væru of miklir eða hvort skorti fjármuni til að framkvæma stefnuna og takast á um slíka hluti, eins og hv. þingmaður nefndi, t.d. hvort við vildum breyta strúktúrnum í kringum nýsköpun og frumkvöðlastarf í landinu, hvort það væri nauðsynlegt og til hvers það ætti að leiða. Það hefur ekki alveg tekist. Þó að mér finnist við samt hafa lært margt varðandi samningu fjármálaáætlunar, þegar kemur að málasviðunum, þá skortir aðeins á þarna. Það er svolítið eins og hæstv. ráðherrar vilji sleppa vel. Þeir vilja gera eitthvað en vilja sleppa vel, þ.e. sleppa undirbúningnum og þeirri skýru sýn sem þarf að vera og markmiðum og viðmiðum fyrir breytingum eins og t.d. þeim sem við ræðum hér.