151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[19:36]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti áhugavert að heyra ræðu hv. þingmanns enda virtist meginþráðurinn í ræðunni fyrst og fremst vera sá að til sé eitthvað sem heitir góðir stjórnsýsluhættir og svo sé til það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera að undanförnu. Þá er hægt að vísa til þess að Fjármálaeftirlitið var sett inn í Seðlabankann. Það er hægt að tala um að leggja niður Neytendastofu. Það er hægt að tala um að færa hluti eins og reglun leikfanga undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Það er hægt að tala um væntanlega niðurlagningu á ríkisskattstjóraembættinu og flutning þess inn í Skattinn og svo til viðbótar það sem við erum að fást við hér, sem er að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og í raun tortíma því stofnanakerfi sem hefur stutt við nýsköpun í landinu.

Ég velti fyrir mér: Hvert er markmiðið? Getur hv. þingmaður, sem hefur töluvert meiri þingreynslu en ég, hjálpað mér að skilja hvers konar hugsun leiðir af sér að fólk fari í svona vegferð? Eins og oft var spurt á tímum Rómaveldis: Hver græðir á svona fyrirkomulagi? Ég get bara ekki skilið hvernig þetta á að vera til bóta. Ég get ekki skilið hvernig það getur verið til bóta að fela stofnunum verkefni sem eru í andstöðu við tilgang þeirra og eðli. Ég þarf hjálp við að skilja þetta (Forseti hringir.) vegna þess að þetta er orðið ákveðið mynstur sem hlýtur að eiga sér rökréttar skýringar, því að annars er þetta gersamlega órökrétt ríkisstjórn.