151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[19:41]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er held ég rétt greining á mynstrinu en eftir stendur spurningin: Hver græðir? Það er ljóst að almenningur græðir ekki á svona fyrirkomulagi og slíkri atlögu að getu samfélagsins til að viðhalda reglum sínum og halda uppi góðum háttum á ýmsum sviðum. Þannig að almenningur græðir ekki og ekki eru fyrirtækin í landinu, sérstaklega litlu og meðalstóru fyrirtækin sem hafa verið að nýta sér stuðningsnet Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands o.fl., að græða á þessu, mögulega þó kannski einhvern tímann í framtíðinni ef eitthvað gerist sem er skilið eftir svo svakalega óljóst í frumvarpinu að það hálfa væri ofsagt. Þannig að ég átta mig ekki á því hver það er sem græðir. En nú er kannski vonlaust að hv. þingmaður eigi til svarið við þessu. Gaman hefði verið að heyra um afstöðuna í þessu frá einhverjum Sjálfstæðismönnum í dag, kannski frá einhverjum Framsóknarmönnum og einhverjum úr flokki hæstv. forsætisráðherra, fyrir utan hv. nefndarformann sem fór með mál áðan.

En kannski er önnur leið, kannski gæti hv. þingmaður sagt mér hvernig væri betra að gera þessa hluti. Það er mjög margt sem er augljóst og einfalt að segja og hv. þingmaður talaði svolítið um ágæta handbók í þessu. Það eru til fínar leiðir og ég ætla ekki að biðja um endurtekningu á því sem var talið upp áðan, en hvernig væri betra að nálgast þetta verkefni?