151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[19:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hverjir græða á breytingunum? spyr hv. þingmaður. Á breytingunum á FME, Samkeppniseftirlitinu, Neytendastofu og skattrannsóknarstjóra held ég að sé augljóst að þeir sem eiga peninga græða. Þetta er þeirra hagur og fyrirtækjanna sem vilja ekki þetta eftirlitsvesen og vilja jafnvel geta selt fólki vörur sem ekki standast kröfur. Og þegar maður spyr hvort ekki sé betra að draga þá af markaði slíkar vörur með góðu neytendaeftirliti segja sumir: Nei, markaðurinn sér um sig sjálfur, fólk hættir bara að kaupa þessar vörur. Það er bara þannig. Það verður einhver fyrir smá skaða en svo leiðréttir markaðurinn sig. Þetta er mantran sem Sjálfstæðismenn fara með og mér heyrist hv. þingmenn Framsóknarflokksins og Vinstri grænna vera farnir að muldra undir með þeim, því miður. En þannig er nú það.

Eins og ég benti hér á eru góðar leiðbeiningar í stjórnsýslunni. Það eru góðar leiðbeiningar úti um ráðuneytin sem gætu hjálpað til við góða stjórnsýslu. Það er auðvitað góð stjórnsýsla víða í kerfinu og ekki ætla ég að draga úr því, en því miður sýnist mér, í þeim tilfellum sem við höfum verið að tala um hér, í umræðu um þetta frumvarp og frumvarp um Neytendastofu, að hæstv. ráðherrar málaflokkanna hafi bara viljað stytta sér leið og út kemur fúsk.