151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[13:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Mig langaði bara rétt, þegar þessari umræðu er að ljúka, að ítreka nokkur atriði sem komu fram í áliti 2. minni hluta atvinnuveganefndar. Þar eru vinnubrögð stjórnarmeirihlutans í þessum málatilbúnaði öllum nokkuð gagnrýnd. Í inngangi nefndarálitsins segir t.d. að að mati 2. minni hluta hafi verið ljóst frá upphafi að frumvarp þetta væri ófullburða. Síðan er fjallað áfram um það mat 2. minni hluta að svo hafi verið. Þá bendir 2. minni hluti á að sú yfirlýsing sem var í innganginum að markmiðslýsingunni hafi enga samsvörun í innihaldi frumvarpsins. Á þetta hafa margir bent í umsögnum og þetta hefur komið fram á fundum nefndarinnar og er mikilvægt að horfa til þess.

Við förum ekkert í grafgötur með það, ég held að allir séu sammála um það, að stuðningur opinberra aðila við nýsköpun er gríðarlega mikilvægur. Það er mjög mikilvægt að utanumhald sé mjög gott og reynt sé að beina þeim fjármunum eða kröftum, því afli sem við höfum til að styrkja nýsköpun, í réttan farveg. Eru því eðlilega uppi vangaveltur um það hvort það sem hér er verið að gera sé til þess fallið.

Annar minni hluti vísar sérstaklega í eina umsögn. Þó að fjallað sé að sjálfsögðu um aðrar umsagnir eða þeim lýst er aðallega vitnað í eina umsögn, umsögn þróunarstjóra nýsköpunarfyrirtækisins DT-Equipment — ég veit ekki hvernig á að íslenska það, þetta verður bara að vera á ensku, DT-búnaður eða eitthvað slíkt. Þar er frumvarpið nokkuð gagnrýnt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Því miður er fyrirliggjandi frumvarp atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um opinberan stuðning við nýsköpun að sama skapi, að mati undirritaðs, samið

án fullnægjandi greiningarvinnu á ráðstöfun opinbers fjármagns til R&Þ,

án fullnægjandi samanburðar við sambærileg kerfi í öðrum löndum,

án fullnægjandi kostnaðargreiningar á fyrirhuguðum breytingum á fyrirkomulagi tæknirannsókna til framtíðar,

án þess að fullnægjandi tillit sé tekið til annarra þátta í starfsemi …“ — Og þannig er áfram haldið.

Síðan kemur fram að 2. minni hluti taki undir þessi sjónarmið, þ.e. að frumvarpið sé ekki nægilega vel unnið. Vitnað er til þess að gerðar séu töluverðar breytingar á frumvarpinu af hálfu meiri hluta nefndarinnar og er því fagnað þar sem það bæti málið verulega. Samt sem áður telur 2. minni hluti að ekki hafi tekist að bæta nægilega vel við þau markmið sem sett voru í 1. gr. frumvarpsins um hvernig efla skuli og styðja við nýsköpun á landsbyggðinni.

Mig langar í þessu sambandi, herra forseti, að nefna að ég átti athyglisvert samtal nú um helgina við konu sem er mjög vel að sér í nýsköpun og hefur stundað rannsóknir í mörg ár, er m.a. að rannsaka þörunga og fleira slíkt. Í því samtali kom fram að við Íslendingar ættum í raun að geta framleitt þann áburð sem við þurfum til að bera á tún. Við ættum að geta orðið sjálfbær um þann áburð sem bændur þurfa að nota, t.d. með því að nota kalkþörunga eða þörunga sem unnir eru úr sjó eða þara eða öðru slíku. Auðvitað er þetta dýrt í dag en við eigum einmitt að setja fjármuni og peninga í að rannsaka þetta til þess að við getum orðið algjörlega sjálfbær, alla vega með þennan hluta af landbúnaðinum, og þá um leið fengið þær vottanir á okkar landbúnað sem við fáum ekki í dag vegna þess að við erum að nota tilbúinn áburð, svo að þetta sé nefnt.

Ég verð líka að segja, herra forseti, fyrst við erum að tengja það aðeins þessari umræðu hér, að það er vitanlega með ólíkindum að bændur sem stunda ræktun og búskap, reyna að framleiða hrein og góð matvæli, fjárfesta í þróun á sínum byggingum, fjárfesta í bættum búskap, fjárfesta í því að rækta sitt búfé, eru virtir að vettugi þegar þeir lenda svo í því t.d. að skorið sé niður hjá þeim. Enn hafa þeim bændum sem misstu allt sitt fé í Skagafirði ekki verið greiddar þær bætur sem þeim ber þó að fá innan 45 daga samkvæmt reglugerð. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé einhver hvati fyrir þá sem standa í þeim sporum að fara af stað á ný, hvað þá að reyna að fjárfesta, búa til eitthvað nýtt í sinni atvinnugrein þegar þannig er komið fram. Þetta er vitanlega til skammar.

Annar minni hluti gagnrýnir líka að ekki hafi verið hugað að því að móta framtíðarstefnu um byggðarannsóknir. Ber þar sérstaklega að nefna, samkvæmt þessu áliti, hinar mikilvægu hagnýtu rannsóknir sem kunna að falla utan samninga sem gerðir eru þar að lútandi o.s.frv.

Annar minni hluti vill líka vekja athygli á því að óvissa ríki um fjárhagslegar afleiðingar af þeim breytingum sem lagðar eru til og þegar kemur að rekstri tækniseturs en ekki hefur verið lögð fram fjárhagsáætlun fyrir setrið. Þá segir 2. minni hluti hér að það hafi komið fram í umsögn Háskóla Íslands að óvarlegt sé að gera félaginu að reiða sig að umtalsverðum hluta á fé úr samkeppnissjóðum utan lands.

Ég ætlaði, eins og kom fram í upphafi máls míns, bara að stikla á stóru varðandi nefndarálitið. Ég held að það sé mjög mikilvægt, þegar stjórnvöld fara af stað með svo veigamiklar breytingar sem hér eru boðaðar, að heimavinnan sé í það minnsta unnin örlítið betur. Í raun þarf að vinna þá vinnu miklu betur því að hér hefur greinilega skort á framtíðarsýn og skort á að menn hafi lagt það niður fyrir sér hvað eigi að taka við. Nú hefur það komið í hlut nefndarinnar að reyna að stoppa í þau göt sem þarna eru. Að mati 2. minni hluta hefur það tekist þokkalega en þó ekki nægilega vel.