151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[14:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði margt rétt í ræðu sinni. En það var eitt sem ég hjó eftir sem ég er ekki alveg viss um að ég sé sammála honum um og mig langaði til að fá að ræða aðeins við hann um það, þ.e. sú spurning hvort það markmið að reyna að ná sparnaði í rekstri einstakra stofnana — með því í þessu tilfelli að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður í sparnaðarhugleiðingum, en stofna síðan eitthvað nýtt sem hefur óljósara stofnanaregluverk o.s.frv. og gæti mögulega sparað einhverja örlitla peninga þrátt fyrir að því virðist vera á hinn veginn farið — sé í sjálfu sér réttmætt markmið. Við höfum í nokkra áratugi verið að berjast svolítið við það að tiltekinn stjórnmálaflokkur, sem hv. þm. Guðjón S. Brjánsson er ekki meðlimur í, hefur ýtt mikið á þá hugmynd að allur ríkisrekstur eigi einhvern veginn að kosta sem allra minnst, ekkert megi nokkurn tíma kosta mikla peninga og fyrst og fremst eigi þjónustustigið bara að minnka, sér í lagi ef möguleiki er á að einhvern veginn sé hægt að velta þjónustunni yfir á einkaaðila.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Gæti verið að þessi rök, sem ég held að hann hafi bara samþykkt í einhverju framhjáhlaupi, séu kannski bara röng, að það felist jafnvel kostir og tækifæri í því að fjárfesta duglega í samfélaginu, að fjárfesta í stofnunum samfélagsins, og að það megi stundum kosta pening að byggja samfélagið upp?