151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[14:20]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að við séum á svipaðri línu með þetta. Það er ótrúlega kjánaleg tilhneiging að ganga út frá því að bókhaldsleg skilvirkni ríkisstofnana sé einhvers konar mælikvarði á samfélagslega skilvirkni samfélagsins í heild. Það er auðvitað fásinna. Mér er alla vega ekki ljóst hvernig það að ríkið, sem er með útgjöld upp á u.þ.b. 1.000 milljarða á hverju ári, verður betra fyrirbæri fyrir samfélagið á því að spara 300 milljónir í nýsköpun. Ég sé það bara ekki. Það er aftur á móti alþekkt það sem sagt er á ensku, með leyfi forseta: „You have to spend money to make money.“ Þú verður að eyða peningum til þess að græða peninga. Ef einungis er horft á þetta út frá mjög þröngu kapítalísku einstaklingshyggjusjónarmiði má samfélagið aldrei eyða peningum til að bæta samfélagið. En það gefur augaleið að öll þessi fyrirtæki, öll þessi flottu fyrirtæki sem byggst hafa upp á Íslandi í gegnum tíðina, eru á einhvern hátt arfleifð þess að ríkið lagði til fjármagn og lagði til einhvers konar stuðning og hafði þessi verkfæri í höndunum. Það væri alla vega áhugavert að sjá hvort meiri líkur væru á flottum fyrirtækjum í framtíðinni vegna þess að við náðum að spara 300 milljónir. En annars er ég fyrst og fremst bara að velta þessu upp og biðja hv. þingmann um að hugleiða þetta með mér.