151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[14:22]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir síðara andsvarið. Þessi málefni eru auðvitað brennandi og það ætti að vera efst á blaði við þessar aðstæður, þegar við erum að rísa upp af krafti eftir áfall og tækifæri gefst til að horfa til framtíðar, að huga að því samfélagi sem við getum vænst að þurfa að byggja upp. Í nokkrum atriðum er það augljóst en í öðrum atriðum ekki. Eitt er það að við þurfum að efla nýsköpun sem byggir á allt öðrum þáttum en við höfum byggt á undanfarna áratugi. Spennandi lausnir bíða á því sviði og þess vegna er mikilvægt að vera í tengslum við háskólaumhverfið og framhaldsskólaumhverfið líka því að nú eru þeim framhaldsskólum um allt land, sem ekki hafa verknámsbrautir, miklu fleiri vegir færir hvað varðar hugvit og hugkvæmni.

En varðandi þær breytingar sem nú eiga sér stað með niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar verður að benda á að Nýsköpunarmiðstöð var ekki fullkomin stofnun. Það mátti ýmislegt að starfinu þar finna. En það var allt of langt gengið að eyða stofnuninni með öllu. Það hefði verið hægt að gera breytingar á stofnuninni, skipta út verkefnum og taka önnur inn, allt eftir því hvernig tíðarandinn og tímarnir breytast.