151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[14:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tek hér í annað sinn til máls um þessi tvö mál sem við ræðum, um opinberan stuðning við nýsköpun og um Tækniþróunarsjóð. Í seinni ræðu minni langar mig til að fjalla nánar um hluti sem ég tel okkur á Íslandi og ráðuneytið og hæstv. ráðherra hafa ákveðna blindu gagnvart. Eitt af því er reyndar það sem margsinnis hefur verið nefnt á fundum atvinnuveganefndar, það er sú staðreynd að nýsköpun felst ekki einungis í tækniverkefnum eða svokölluðum STEM-greinum, þ.e. raunvísinda- og tæknigreinum. Þótt þær komi auðvitað nýsköpun afskaplega mikið við þá má samt ekki gleyma því að nýsköpun felur það í eðli sínu í sér að gera eitthvað nýtt. Það er ýmislegt nýtt að gerast í mannlegu samfélagi sem ekki varðar raunvísindi og tækniþróun. Eitt einfalt dæmi er verkefni sem heitir Tré lífsins og ég vek athygli á og hægt að kynna sér betur á vefslóðinni trelifsins.is. Það er dæmi um nýsköpunarverkefni sem vissulega kemur upplýsingatækni á einhvern hátt við en er í grunninn ekki tæknilegs eðlis heldur er fyrst og fremst nýsköpun. Við verðum að hafa augun opin fyrir þessu. Ég geri fastlega ráð fyrir því að meira verði rætt um þetta seinna í dag.

Sömuleiðis, eins og fram kemur í umsögn Space Iceland við málið er nýsköpun ekki einungis háskólaverkefni. Jafn mikilvæg og háskólamenntun er, ekki síst í raungreinum, svokölluðum STEM-greinum, þá á sér samt stað ýmis nýsköpun án þess að háskólamenntun sé þar í forgrunni eða jafnvel bakgrunni. Sér í lagi má nefna að á Íslandi erum við með tiltölulega blómlegan hugbúnaðargeira, sem sá sem hér stendur kemur reyndar úr, og þótt að háskólamenntun gagnist auðvitað fólki í þeim geira eins og öðrum geirum þá stendur eftir að það er dæmi um nýjan iðnað á sögulegan mælikvarða þar sem ekki er í raun þörf á háskólamenntun. Það er hægt að öðlast miklu meira en næga þekkingu á hugbúnaðargerð með því einu að nýta aðgang að efni sem er ókeypis á netinu í óendanlegu magni, eða svo gott sem. Vitaskuld er ég ekki að draga úr mikilvægi háskólamenntunar heldur einungis að nefna að við megum ekki líta svo á að nýsköpun sé ýmist afmörkuð við STEM-greinarnar eða háskólasamfélagið vegna þess að svo er ekki. Ef við takmörkum nýsköpun við þessa þætti útilokum við tækifæri sem eru til staðar utan þeirra.

Þá vil ég einnig aðeins fjalla um, óháð þessum tilteknu málum sem við ræðum hér í dag, hvernig viðhorf yfirvalda geta staðið í vegi fyrir tækifærum sem blasa við og við ættum að nýta og yfirvöld ættu að sjá að hægt sé að nýta þegar þau koma upp. Fyrir örfáum árum var hér nýsköpunarverkefni sem kallað var „Jungle bar“, einhvers konar orkustykki sem búið var til úr skordýrum, sem þykir nýstárlegt og ég skil mætavel að fólki finnist það kannski skrýtið í fyrstu. En þegar litið er á bak við þá hugmynd kemur í ljós að hún er stórgóð. Það er hægt að búa til ógrynni af próteini með afskaplega lítilli orku og með afskaplega litlum og mögulega engum neikvæðum áhrifum á umhverfið. Nú verð ég að viðurkenna að skilningur minn er sá að þetta verkefni hafi því miður ekki gengið upp, án þess að ég hafi fylgst með því nýlega, en á sínum tíma var það þannig að þeir aðilar sem stóðu að þessu lentu á vegg hjá íslenskum yfirvöldum. Þá kom í ljós að það var einhver reglugerð sem gerði það að verkum að þetta var eitthvert ægilegt vandamál á Íslandi. Ef nýsköpunarhugarfarið hér væri rétt þá hefði kerfið okkar frekar gripið utan um þetta og reynt að lagfæra þær reglur sem voru í gildi til að gera verkefnið mögulegt frekar en að sporna gegn því. Þetta er bara dæmi.

Síðan eru til dæmi þar sem kerfið eða ríkið eða yfirvöld standa kannski ekki beinlínis í vegi fyrir neinu, en bera hins vegar ekki kennsl á möguleg tækifæri. Þar ætla ég nefna ágætt þingmál frá þingflokki Pírata um kjötrækt, sem er nú til umfjöllunar í hv. atvinnuveganefnd. Ég verð að segja það í leiðinni að á sínum tíma þegar núverandi hv. 11. þm. Reykv. s., Björn Leví Gunnarsson, var varaþingmaður á þarsíðasta kjörtímabili og spurði þáverandi hæstv. ráðherra Sigurð Inga Jóhannsson út í kjötrækt þá þótti það skrýtið umræðuefni. Það virtist vera sem svo að hæstv. ráðherra hefði ekki heyrt um þetta, sem er gott og blessað. En nú eru liðin ansi mörg ár og tækifærin blasa við og það væri hægt að spýta í lófana og reyna að rannsaka þetta betur eins og reyndar eina umsögnin sem fylgir málinu leggur til vegna þess að þarna er um að ræða tækifæri sem Ísland er í sérstaklega góðri stöðu til að nýta eða í það minnsta er það mögulegt. Enda fjallar þingsályktunartillagan um að kanna stöðu kjötræktar og skipuleggja aðgerðaáætlun um innleiðingu tækni fyrir landbúnað með það að markmiði að hefja hér kjötrækt. Það ætti ekki að fara fram hjá neinum hversu mikil tækifæri gætu falist í því að geta ræktað kjöt án þess að því fylgi áhrif á umhverfið, sér í lagi loftslagsbreytingar.

Þá vil ég gera eitt að sérstöku umræðuefni og ég átta mig á því að kannski er sá sem hér stendur farinn að hljóma svolítið eins og biluð plata og eins og þetta sé það eina sem ég telji koma nýsköpun við. En svo er ekki. Við erum með ákveðna blinda bletti í tækifærum til nýsköpunar á Íslandi, virðulegi forseti, og einn af þeim blindu blettum er geimiðnaðurinn. Enn og aftur minni ég á það að þótt Ísland sé lítið ríki með fátt fólk miðað við hinn stóra heim, vissulega Sovétríkin sálugu eða Bandaríkin eða Kína, þá stendur okkur til boða alþjóðlegt samstarf í geimiðnaði og það er Evrópska geimvísindastofnunin eða European Space Agency á ensku, skammstafað ESA.

Nú liggur fyrir samþykkt ályktun Alþingis um að sækja um aðild að gefinni greiningu á kostnaði og skuldbindingum og er sú ályktun einfaldlega í gildi. Einnig var hv. þm. Guðjón S. Brjánsson að leggja fram fyrirspurn í febrúar til hæstv. utanríkisráðherra um stöðu málsins og hlakka ég til að fá svarið við þeirri fyrirspurn og þakka hv. þingmanni fyrir að leggja hana fram. En það er þannig, virðulegi forseti, hvort sem fólk trúir því eða ekki, að það er nú þegar geimiðnaður á Íslandi. Hann er ekki mjög stór, hann hefði gott af meiri stuðningi. Hann hefði gott af því að yfirvöld settu sér einhverja sýn í málaflokknum sem þau hafa ekki, kannski vegna þess að við á Íslandi höfum trúað því að við séum of lítið ríki til að taka þátt í þessum iðnaði eða þessum vísindum. Vitaskuld, virðulegi forseti, er það jafn fráleitt og að við séum of lítil til að taka þátt í hugbúnaðargerð eða eðlisfræði eða veðurathugunum eða jarðfræði eða sálfræði eða lögfræðinni sem fylgir geimiðnaðinum, virðulegi forseti. Það eru líka fög og svið fyrir utan STEM-greinarnar í geimvísindum. Það er reyndar mjög fátt í mannlegu samfélagi sem kemur geimvísindum á engan hátt við ef út í það er farið.

Árið 2020, í fyrra, skaut skoskt fyrirtæki, Skyrora, upp tilraunaeldflaugarskoti af Langanesi. Þar voru tveir hv. þingmenn viðstaddir og var mjög áhugavert að sjá flaugina á leiðinni upp í nokkrar sekúndur. Það er í fyrsta sinn sem hér er skotið upp eldflaug á Íslandi í meira en 50 ár. Það er vonandi að þessi tilraunaskot verði fleiri en Skyrora hyggst prófa tvö skot í viðbót á næstu misserum og vonandi verða þau á Íslandi. Við sjáum til með það. Það fyrirtæki framleiðir einnig eldflaugareldsneyti úr plastúrgangi, annað sem Ísland er mögulega í mjög góðri aðstöðu til þess að koma að þar sem hér er gnægð endurnýjanlegs rafmagns sem er eitt af því sem þarf til að framleiða flugvélaeldsneyti úr téðum úrgangi. Svarmi er íslenskt fyrirtæki sem sigraði ESA Copernicus Masters árið 2018. Það var aðeins fjallað um þetta í fréttum á þeim tíma. Síðast en ekki síst má nefna Space Iceland sem eru hagsmunasamtök sem skiluðu inn umsögn um þessi mál, sem er reyndar ansi umfangsmikil, hún er 45 blaðsíður.

Að lokum langaði mig að fara aðeins út í hvað felst í aðild að Geimvísindastofnun Evrópu og reyna að hughreysta Íslendinga og sér í lagi yfirvöld og sannfæra okkur um að við eigum erindi þangað og höfum hag af því að vera í því samstarfi. Ég verð því miður að láta það bíða seinni ræðu sökum tímaskorts.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.