151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[14:35]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Þrátt fyrir að hafa kynnt mér þetta mál ágætlega og hlustað á umræðuna átta ég mig ekki enn þá á því af hverju leggja eigi Nýsköpunarmiðstöð Íslands niður í þeirri mynd sem hefur verið. Þar hefur verið unnið mikið og gott starf síðustu ár og ég hefði frekar viljað sjá að sú leið yrði farin að aðstoða þá miðstöð við að þróa sig áfram. Nýsköpunarumhverfið á Íslandi er mjög karllægt og einhæft og ekkert kemur fram í þessu frumvarpi um að grípa eigi til aðgerða til að snúa þeirri þróun við. Þegar ég segi karllægt meina ég að mikil áhersla sé lögð á svokallaða hátækni. Það eru greinar sem sískynja karlmenn sækja mikið í og eru þess lags að það eigi að skila einhvers konar lokaafurð sem hefur möguleika á að græða fullt af pening svo að fjárfestar, sem oftast eru líka sískynja karlmenn, geti grætt peninga.

Ég vek athygli á því að ég er meðvituð um að verið er að reyna að auka fjölbreytileika innan deilda háskólans sem kenna tæknigreinar eða verkfræði en betur má ef duga skal. Það sem ég er að reyna að koma á framfæri er að nýsköpunarumhverfið á Íslandi er mjög karllægt, þ.e. mikil áhersla er lögð á að gera hlutina hratt. Það er mikil áhersla lögð á að koma fram með mjög fastmótaða hugmynd sem á að skila sér í lokaafurð og þú átt að geta sannfært fjárfesta um að fjárfesta í þér og þessari hugmynd. Það hljómar auðvitað vel að segja að Ísland ætli að vera fremst í flokki þegar kemur að því að framleiða tækni. CCP hefur t.d. oft verið hampað hér sem undraverki frá Íslandi. En með fullri virðingu fyrir þeim fyrirtækjum sem hafa náð langt í gegnum árin þá á hugmyndaauðgi og nýsköpun sér stað á öðrum sviðum en hátækni. Það að vera fremst meðal þjóða getur falið í sér að efla samfélagið af því að samfélagið er svo miklu meira en bara tæknilausnir og ekki er unnt að leysa öll vandamál með tækni. Framþróun samfélaga verður þegar við leyfum okkur að ímynda okkur öðruvísi framtíð. Það getur falið í sér að ýta undir nýsköpun innan hugvísinda eða félagsvísinda. Hugmyndafræðin byggir upp kerfin sem við búum til og búum í. Af hverju ekki að nýta þá þekkingu sem við höfum, m.a. innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, til að leyfa frumkvöðlum að hugsa út fyrir kassann enn frekar? Rannsóknir eru ekki einvörðungu tæknilegs eðlis. Ef sú væri raunin gætum við alveg eins pakkað saman nánast helmingnum af Háskóla Íslands, ef við trúum því í alvörunni. Samfélög sem skara fram úr eru þau sem leyfa sér að ímynda sér öðruvísi kerfi og því gæti verið nauðsynlegt að veita fólki rými til að hugsa og tala við annað fólk. Ég myndi vilja sjá nýsköpunarstyrkjum í meira mæli beint að hugmyndafræðilegum hugmyndum, t.d. hugmyndinni um að gera samfélög barnvænni eða brenna niður feðraveldið. Hvernig ætlum við að komast á þann stað ef við leyfum hugmyndaauðgi ekki að blómstra, hvort heldur sem það er á hugvísinda-, félagsvísinda- eða tæknilegu sviði? Af hverju ekki að byggja á þeirri þekkingu sem var til staðar og vera fremst meðal þjóða í velferð og uppbyggilegri samfélagsrýni? Tæknin hefur vissulega bætt lífsskilyrði okkar og getur verið skemmtileg. En hvaða samfélagi og hvaða markmiðum viljum við að þessi tækni þjóni?