151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[14:41]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp um opinberan stuðning við nýsköpun. Frumvarpið felur í sér breytt fyrirkomulag á stuðningsumgjörð, við getum kallað það stofnanastrúktúr í kringum nýsköpun. Málaflokkurinn allur er þess eðlis að það þarf að vanda mjög til verka. Ég held að í sjálfu sér sé andi frumvarpsins alls ekki slæmur. Ég held að það sé með umgjörð nýsköpunar eins og aðra hluti að við þurfum sífellt að vera vakandi fyrir því að hún sé þannig úr garði gerð að hún komi að sem mestu og bestu gagni. Nýsköpun, tækni og vísindi eru málefni sem varða mjög þjóðarhag, varða mjög framtíð okkar, varða mjög framvindu til langs tíma í efnahagslífi þjóðarinnar, skipta verulegu máli um lífskjör hér til framtíðar, skipta miklu máli fyrir það að við getum tryggt betur stöðugleika í íslensku samfélagi, getum byggt upp fjölbreytt atvinnulíf sem getur verið undirstaða útflutnings á margvíslegri þjónustu, vörum og þekkingu. Hér er því gríðarlega margt undir.

Ég hef margsinnis bent á það að þetta sé málaflokkur sem eigi alltaf að taka alvarlega. Við eigum alltaf að vera að ræða um þessi málefni. Við eigum alltaf að leita bestu leiða til þess að vinna þessum málefnum framgang. Það er einu sinni þannig að við erum vön því að búa við mjög sveiflukennt hagkerfi. Það er ekki síst vegna þess að í gegnum aldirnar höfum við búið við einhæft atvinnulíf. Þetta vitum við öll. Hér var bændasamfélag og síðan þróuðust við yfir í það fara að hagnýta af miklum móð auðlindir á borð við fiskveiðiauðlindina, sem við erum svo heppin að hafa í kringum okkur. Við höfum hagnýtt orkuna og við höfum auðvitað eflt þjónustu og hér er iðnaður af ýmsu tagi. Við erum með stóriðju, ýmiss konar smáiðnað og á hinum síðari árum þá höfum við þrátt fyrir allt náð að byggja upp atvinnugreinar sem við erum stolt af sem falla undir þann flokk sem byggir á tækni, nýsköpun og rannsóknum og það er vel. En við þurfum að gera mun betur. Það er oft sá galli á þegar vel gengur í þessum aðalatvinnugreinum okkar að við missum svolítið fókusinn og athyglina á þessum málum. Það eru fjölmörg dæmi um þetta. Við þekkjum auðvitað að í kjölfar efnahagsáfallsins 2008 varð hér til má segja nánast ný atvinnugrein, a.m.k. í þeim mæli sem raun hefur borið vitni, sem er ferðaþjónustan. Hún óx hér á, við getum sagt, undraverðum hraða. Hún skilaði miklu til uppbyggingar í íslensku samfélagi og það er auðvitað vel. En meðan allt lék í lyndi þá gleymdum við aftur nýsköpuninni.

Það þýðir ekki það að við höfum ekkert gert. Við höfum gert ýmislegt vel en eins og áður hefur komið fram þá þarf að gera betur þannig að við getum nýtt þann ávinning sem án nokkurs vafa felst í því að ná góðum árangri. Við getum nefnt hin klassísku fyrirtæki sem hafa orðið hér til og við erum stolt af og eru orðin stór á alþjóðavísu og eru í fararbroddi á sínu sviði. Þegar saga flestra þeirra er skoðuð kemur í ljós að það hefur tekið talsverðan tíma fyrir þessi fyrirtæki að vaxa og dafna, jafnvel áratugi. Svona fyrirtæki eru sjaldnast hrist fram úr erminni. Það eru auðvitað til undantekningar frá því og fyrirtæki takist svo vel til að hasla sér völl á þessu sviði með nýrri þekkingu, nýrri tækni á grundvelli vísinda, að það taki örfá ár að ná verulegum árangri og skapa miklar tekjur. Við Íslendingar eigum ekki mörg dæmi um það en þau eru vissulega til. En það eru undantekningarnar. Það þarf mikla vinnu og mikla þolinmæði til að ná alvöruárangri og þar þurfum við að bæta okkur.

Það gerum við með hinni almennu umgjörð. Við gerum það líka með aðkomu hins opinbera að einhverju marki. Það er eðlilegt að hið opinbera sjái til þess í fyrsta lagi að umgjörð, lagalegt umhverfi, menntun og aðstaða öll sé til fyrirmyndar. Það þarf líka að passa upp á að veitt sé fjármagn í þetta kerfi, bæði beina fjármögnun fyrirtækja á upphafsstigum í formi styrkja en síðar að greiða götu þess að til verði aðilar sem sjá sér hag í því að fjármagna vöxt og framgang þessara fyrirtækja. Okkur hefur miðað nokkuð í þessum málum, svo maður hrósi nú því sem vel hefur verið gert þó að það hafi sumt tekið fulllangan tíma. En það sem mér hefur yfirleitt þótt til baga þegar þessi mál eru til umfjöllunar er að menn hugsa til of skamms tíma í senn. Nýsköpun er langhlaup, er oft sagt, og það eru orð að sönnu.

Það sem er mikilvægt fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem vilja feta þessa braut er að hægt sé að sjá eins langt fram í tímann hvað varðar aðgang að aðstöðu, styrkjum og fjármögnun og nokkur kostur er. Auðvitað eru ekki allar hugmyndir þess eðlis að þær nái árangri eða að hvaða hugdetta sem er verðskuldi óskoraðan stuðning hins opinbera en margar þeirra gera það. Og það er nú einu sinni þannig í þessum bransa að það er vitað að ekki nema hluti hugmyndanna nær þessu mikla flugi, verður að þessum einhyrningum sem stundum er talað um. Aðrir ná verulegum árangri, aðrir litlum og svo enn önnur fyrirtæki engum. En þetta er umhverfið og við vitum að þarna er viss, ég veit ekki einu sinni hvort ég má nota það orð, fórnarkostnaður, en eðli þessarar starfsemi er þannig að sumt tekst og annað ekki. En fyrirsjáanleikinn þarf að vera.

Þegar hér fór t.d. að sverfa að, auðvitað var byrjað að draga úr efnahagslegum vexti og óveðursský voru farin að hrannast upp þegar í upphafi ársins 2019 en síðan kemur Covid af fullum þunga, þurfti að grípa til ýmissa efnahagsráðstafana, eðlilega. Það var eðlilegt að grípa inn í og margar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar voru ágætar og studdar af minni hlutanum og sneru fyrst og fremst að nokkurs konar neyðarráðstöfunum og björgun til að hjálpa fyrirtækjum og heimilum sem lentu í miklum vanda. En eitt af því sem var fljótlega farið að tala um, og er akkúrat í takt við það sem ég var að tala um áðan, var að nú þyrfti að leggja áherslu á nýsköpun. Enn einu sinni kom kreppa og bjargráðið er nýsköpun. Já, það var vissulega gott að gera það. En þær ráðstafanir sem var gripið til í kringum nýsköpunina voru allar því marki brenndar að vera til bráðabirgða. Þetta voru bráðabirgðaákvæði, t.d. varðandi hækkun fyrirgreiðslu til fyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Þau ákvæði voru öll rýmkuð fyrirtækjunum til hagsbóta en það var gert til tveggja ára. Það er farið að síga á seinni hluta þess tímabils. Það voru líka gerðar breytingar t.d. varðandi lífeyrissjóði, þeim var veitt aukið svigrúm til að taka þátt í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu, eins og það er kallað, oft kallað líka vísisjóðir. Það átti upphaflega að vera til tveggja ára en niðurstaðan varð sem betur fer sú að efnahags- og viðskiptanefnd, sem fjallaði um málið, framlengdi það til 1. janúar 2025. Engu að síður er þetta hin sama skammtímahugsun. Sjóðir um sameiginlega fjárfestingu eða svokallaðir vísisjóðir hafa takmarkaðan starfstíma og eru þess eðlis að það er byrjað á því að safna fé í sjóðinn eða fjármögnunarloforðum. Þá byrja sjóðirnir að fjárfesta og síðan loka þeir fyrir frekari nýfjárfestingar, fylgja fjárfestingum sínum eftir með frekari stuðningi á vaxtar- og líftíma sjóðanna og síðan eru þeir yfirleitt leystir upp. Það sem þarf að vera er keðja af svona sjóðum þannig að hver geti tekið við af öðrum. Þeir þurfa að vera nokkrir. Sjóðir af þessu tagi hafa þá eiginleika yfirleitt að þeir eru sérhæfðir, geta verið sérhæfðir eftir því á hvaða stigi vaxtar fyrirtækin eru. Þeir geta líka verið sérhæfðir eftir viðfangsefnum þeirra fyrirtækja sem fengist er við.

Allt þetta er gríðarlega nauðsynlegt til þess að halda við þessu umhverfi þannig að hægt sé að halda nýsköpuninni og fjármögnun hennar áfram þrátt fyrir að eitthvað fari að rætast úr í efnahagslífinu. Við þurfum svo mikið á því að halda að breyta íslensku atvinnulífi frá því að treysta um of á fáar atvinnugreinar sem þar að auki eru viðkvæmar. Við sjáum það að árferði í hafinu getur haft mikil áhrif á sjávarauðlindina. Við sjáum það líka og erum búin að læra það núna af biturri reynslu að það má ekki mikið út af bregða, þó að þetta hafi verið óvenju hastarlegt núna, til að ferðaþjónustan verði fyrir áfalli. Það má ekki vera þannig að við séum með svona fáar og stórar greinar sem geta síðan þegar illa árar valdið — það eru auðvitað ekki greinarnar sjálfar heldur þau áföll sem þær verða fyrir — búsifjum fyrir efnahagslíf Íslendinga.

Þetta er mjög stórt hagsmunamál sem er hér undir þegar við erum að tala um alla þessa umgjörð. Þess vegna vil ég bara ítreka það að við þurfum að hugsa stórt í þessum efnum. Það mun taka okkur býsna langan tíma að koma þessu í almennilegan farveg og við eigum að horfast í augu við það. Þess vegna eigum við að gera ráðstafanir þannig að þeir sem eru í þessu umhverfi viti a.m.k. að næstu tíu árin verði fyrirkomulagið með einhverjum tilteknum hætti. Það má vel hugsa sér að móta stefnu sem er auðvitað til sífelldrar endurskoðunar en engu að síður sérðu alltaf visst langt fram í tímann þegar þú leggur af stað í þína vegferð. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli til þess að hér skapist frjór jarðvegur fyrir vísindi, tækni og nýsköpun. Við sjáum það að við eigum fullt erindi, við getum svo margt á þessu sviði. Við getum bæði byggt á því sem íslenskar séraðstæður skapa, það er margvíslegt sem við höfum gert í tengslum við sjávarútveg eða er sprottið upp úr eða hefur átt uppruna sinn þar. Við höfum gert minna af því að hagnýta sérstöðu okkar í t.d. orkumálum. Það er dálítið sérkennilegt að við skulum ekki hafa meira af vörum eða búnaði sem tengist orkuvinnslu og orkunýtingu, hitaveitum og þess háttar. Það er dálítið magnað að Danir eru t.d. sérfræðingar í hitastýrikerfum og ofnlokum og dótaríi fyrir ofna og kyndingu með heitu vatni. Við erum ekki með neitt slíkt. Mér finnst alltaf dálítið skrýtið að við skulum ekki hafa getað haslað okkur einhvern völl þar.

Þetta er ein hliðin á peningnum, þ.e. við getum nýtt okkar styrkleika sem fyrir eru og spunnið út frá þeim. Marel er auðvitað gott dæmi um þetta sem á rætur að rekja í nýsköpun í sjávarútvegi eða vinnslu sjávarafla og er síðan komið um víðan völl í matvælaframleiðslu og sjávarútvegsfyrirtækið eða vinnsla fiskmetis kannski orðinn minnstur hluti af þeirra starfsemi. Svo eigum við önnur fyrirtæki sem hafa sprottið upp á ólíklegum stöðum. Þar er nærtækt að nefna fyrirtæki eins og Össur sem er orðið mjög stórt fyrirtæki á heimsvísu og á rætur að rekja til nánast bara eins manns sem smíðaði gervilimi. Síðan eigum við fyrirtæki eins og CCP sem er mjög stórt í leikjaiðnaði. Forsaga þess er að mörgu leyti mjög forvitnileg. Við áttum hér einu sinni fyrirtæki sem hét Oz og við trúðum mikið á sem var mjög framsýnt, skulum við segja, var að gæla við ýmsa tækni og möguleika í sýndarveruleika. Það tókst ekki alveg sem skyldi en frá því fyrirtæki hafa sprottið ótrúlega mörg önnur fyrirtæki, þar á meðal einmitt CCP. Þannig að það að hafa grósku á öllu þessu sviði skiptir okkur gríðarlega miklu máli og ég held að við getum bætt okkur til muna með mun markvissari aðgerðum og sýn í þessum málum, sérstaklega ef við höfum þá þolinmæði og framsýni sem þarf til þess. Þá hef ég engar áhyggjur af því að við munum ná góðum árangri á þessu sviði.