151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á undanförnu ári höfum við verið að reyna að koma stjórnvöldum í skilning um mikilvægi nýsköpunar. Hv. þingmaður hefur einmitt verið tiltölulega duglegur við að leggja til breytingar og koma auknum krafti í það sem hann nefndi í ræðu sinni varðandi vísisjóði og þess háttar, sem vissulega er þörf á í íslensku nýsköpunarumhverfi. En eins og hv. þm. Smári McCarthy kom inn á í ræðu sinni í upphafi umræðunnar þá er þetta frumvarp einmitt að eyðileggja fyrstu stig nýsköpunar á Íslandi, það er að taka burt það aðgengi sem fólk hefur haft að fyrstu þremur stigum nýsköpunar, eins og það var orðað hérna, á meðan við höfum vissulega verið að byggja upp meira vísisjóðaumhverfi. Það er svo sem gott og blessað en að taka burt grunnræturnar er rosalega merkilegt skref. Á móti lögðum við hv. þingmaður og flokkur hans og aðrir flokkar í stjórnarandstöðunni til í upphafi faraldursins að aukinn kraftur yrði settur í nýsköpunarumhverfið til að bregðast við faraldrinum.

Mig langaði að fá viðhorf hv. þingmanns, með nýsköpunarreynslu hans og áherslu á vísisjóðina, til þess hvernig við gætum gert betur, t.d. vonandi í þessu frumvarpi en ef ekki þá strax með einhverjum öðrum aðgerðum til að skapa vettvang fyrir þá grunnnýsköpunarstarfsemi sem er verið að eyðileggja hérna.