151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir andsvarið. Já, þetta er kannski ekki allt alveg einfalt. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég hef talað talsvert mikið um vísisjóði og fjármögnun þeirra, sem ég tel að skipti gríðarlega miklu máli og það er alveg hárrétt hjá honum að þeir sjóðir koma ekki að þessum málum fyrr en fyrirtæki eru aðeins farin að sanna sig og komin á einhvern legg.

En ég hef líka talað fyrir því að það sé gríðarlega mikilvægt að sjóðir á borð við Tækniþróunarsjóð séu efldir og virkir. Ég held að Tækniþróunarsjóður hafi sýnt það og sannað að einmitt á frumstigum skiptir svo miklu máli líka að hafa aðgang að styrkjakerfi. Sjálfur hef ég fyrir minn þingferil notið góðs af Tækniþróunarsjóði og fékk þar ásamt samstarfsfólki mínu einmitt styrk á þeim tíma sem var kallaður Fræ. Þá vorum við sem þar vorum með hugmynd á servíettu nánast en þurftum aðstoð sem við fengum. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Ég tek alveg undir það og það er kannski sá ágalli sem er á þessu ágæta frumvarpi hér að menn ákveða að taka skref til að taka svolítið í sundur kerfi sem fyrir var án þess að vera búnir að hugsa til hlítar hvað eigi að taka við. Ég held að það sé stærsti ágallinn. Menn verða að vita hvað þeir ætla að gera svo og mér finnst það dálítið mikið í lausu lofti í þessu ágæta frumvarpi.