151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú hitti ég vel á. Hér lauk hv. þingmaður síðasta andsvari sínu á því að tala um að við mættum ekki sitja uppi með of þunglamalegt stofnanastoðkerfi. Það er einmitt það sem mig langaði að spyrja hann um. Stoðkerfi nýsköpunar er kannski dálítið eins og nýsköpunarverkefnin sjálf. Þar ægir ýmsu saman, þar þarf að draga saman marga þræði. Þess vegna hættir kerfinu kannski til að verða of þungt í vöfum. Nýsköpunarstoðkerfið þarf að vera vettvangur fyrir samtal á milli fræðasamfélagsins og menntakerfisins, ríkis og sveitarfélaga, vinnumarkaðarins, fyrirtækja, og þetta þarf allt einhvern veginn að koma saman og fólk að vera með sameiginleg markmið. Ég held við getum öll verið sammála um að núverandi umhverfi sé ekki hið fullkomna. Ég held að enginn í þessari umræðu hafi efast um það. Þess vegna hefði kannski verið eðlilegt fyrsta skref að leita hugmynda hjá fólkinu í þessum bransa sem er fólk sem starfar alla daga við að fá hugmyndir og miðla þeim. Það hefði kannski verið betra skref en að segja: Við ætlum að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður.

Mig langar að spyrja: Með þeirri framtíðarsýn sem er boðuð með þessum breytingum varðandi það að taka samtalið sem á sér stað á vettvangi Nýsköpunarmiðstöðvar og færa yfir í m.a. tæknisetur, sem er ný tegund af verkfæri í þessu umhverfi, einkahlutafélag í eigu ríkisins, erum við ekki farin að stíga þar of langt í eina áttina til þess að um verði að ræða þetta miðlæga samtal milli þessara ótal ólíku aðila? Er ríkisstjórnin þarna mögulega farin aðeins fram úr sér?