151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:20]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég geri ekki athugasemdir við vinnu forseta að sinni en langar til að beina því til forseta að umræður af þessu tagi, um mál sem eru jafn umdeild og þetta mál er, eru miklu líklegri til að ná árangri ef það er þátttaka í umræðunni af hálfu bæði stjórnarandstöðu og stjórnarmeirihluta. Nú hafa komið fram í hverri ræðunni á fætur annarri mjög alvarlegar athugasemdir við þessi frumvörp, aðallega þó fyrra frumvarpið, og nauðsynlegt að tekið sé á þeim í þinglegu ferli, ekki að stjórnarliðar hummi það fram af sér og virkilega vond lagasetning eigi sér stað hérna í skjóli þess að fólk vilji ekki standa fyrir máli sínu. Ég vona að hæstv. forseti taki undir það með mér að nauðsynlegt sé að við fáum einhverja til þess að tala máli þessa máls ef það á að hljóta brautargengi hér.