151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:23]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Í ræðu minni síðastliðinn fimmtudag um þetta mál ræddi ég mikið um stóru myndina varðandi það hvers vegna þetta er algjörlega gallað frumvarp, og þá er ég að tala um frumvarp um opinberan stuðning við nýsköpun. Ég eyddi kannski ekki nægilega miklum tíma í að tala um hliðstæðuna og andstæðuna sem er það hvernig á að byggja upp nýsköpunarumhverfi á Íslandi. Ég hef hugsað svolítið mikið um þetta undanfarna daga vegna þess að það er mikilvægt að við svörum þeirri spurningu á gagnlegan hátt. Í allri umræðu, hvort sem fólk er hlynnt þessu afleita frumvarpi eða á móti því, eru allir að taka sömu dæmin um það hvernig við viljum sjá nýsköpun á Íslandi. Þá vísar fólk í ákveðin klassísk fyrirtæki sem hafa verið — einhver myndi nota orðalagið fjöregg þjóðarinnar, fyrirtæki sem hafa náð gífurlegum árangri á sínu sviði, eru með svakaleg útflutningsverðmæti, eru með gríðarlegan vöxt og eru ímynd þess sem við viljum sjá meira af á Íslandi. Þá er hægt að tala um Marel, um CCP, um Íslenska erfðagreiningu. (Gripið fram í: Í enn eitt skiptið. ) Já, og Össur og fleiri og fleiri. Það er hægt að tala um ótrúlega mörg slík fyrirtæki. Nú hef ég kannski verið svolítið gagnrýninn á sjávarútveginn í gegnum tíðina en það er samt alveg réttmætt að nefna sum þeirra fyrirtækja í sama samhengi vegna þess að gríðarleg nýsköpun á sér stað innan þeirra líka og í rauninni bara hvert sem horft er í íslensku samfélagi eru það þessi stóru fyrirtæki á íslenskan mælikvarða, tiltölulega lítil á alþjóðamælikvarða en stór hér, sem móta það hvernig framtíðin verður.

Í ræðu hér áðan talaði hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson um fyrirtækið Oz sem er mjög gott að fjalla um í þessu samhengi. Það er fyrirtæki sem þrátt fyrir að hafa ekki náð markmiðum sínum um sýndarveruleika á sínum tíma — ég man bara sem unglingur að hafa heyrt af þessu fyrirtæki sem var að gera svo flotta hluti og var virkilega að því þá — varð uppspretta að svo mikilli þekkingu og svo miklu af því sem við höfum byggt á síðan þá. Oft hefur verið sagt að fyrirtækið CCP hafi í rauninni sprottið upp frá þeim lærdómum og lexíum sem fólk lærði í Oz. Það er ágætt að hugsa um CCP í þessu samhengi vegna þess að á þeim tíma sem CCP varð til var ekkert til á Íslandi sem hét tölvuleikjaiðnaður. Ég hef ekki nýlega tölu um það en ég veit ekki betur en að á Íslandi séu í dag 10–15 fyrirtæki í tölvuleikjaiðnaði og megnið af þeim er stofnað og rekið af fyrrum starfsmönnum CCP sem hafa ákveðið að fara sína eigin leið, byggt á reynslu og þekkingu sem þeir hafa fengið þar.

Á þennan hátt eru fyrirtæki í nýsköpunarrekstri ákveðnir hreyflar, þeir framleiða ekki bara auð í formi arðs og starfa heldur líka þekkingu fyrir nýjar kynslóðir. Þá mætti maður spyrja sig hvort ekki sé til betri leið til að byggja upp svona fyrirtæki og fjöldaframleiða fyrirtæki af þessu tagi en að tortíma því umhverfi sem varð til þess að þau fyrirtæki urðu til til að byrja með. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvaða áhrifaþættir ollu því að Marel gekk vel eða Össuri gekk vel eða Íslenskri erfðagreiningu gekk vel eða CCP. En það er ljóst að það var eitthvað sem virkaði og ég veit ekki til þess að í þinglegu ferli þessa máls hafi átt sér stað samtal við forsvarsmenn þessara helstu nýsköpunarfyrirtækja landsins um það hvað það var sem stuðlaði að því að þeim gekk vel, hvað það var sem hefði getað valdið þeim vandamálum eða olli þeim jafnvel vandamálum, hvaða vandamál það voru sem voru erfiðust fyrir þau og jafnvel hvaða vandamála þau þekkja til sem urðu öðrum nýsköpunarfyrirtækjum að banameini.

Það er ljóst að það var eitthvað sem virkaði hér og ég hef oft gagnrýnt það að nýsköpunarumhverfið hérna er ótrúlega lélegt í samanburði við mörg önnur lönd. En einhvern veginn tókst þessum fyrirtækjum að koma sér á legg, fyrst og fremst, held ég, í krafti gífurlegs dugnaðar og góðra hugmynda en ríkiskerfið studdi á einhvern hátt við einhver þessara fyrirtækja. Ef við horfum á tímalínu stærstu, flottustu nýsköpunarfyrirtækja Íslands, þá sjáum við kannski að á tíu ára fresti kemur eitt stórt, nokkurn veginn. Ég held að það sé ágætismeðaltal. Hvernig myndum við stilla þessu frumvarpi upp ef markmiðið væri ekki bara 300 millj. kr. hagræðing, niðurskurður, og lélegra kerfi fyrir alla, sérstaklega minnstu fyrirtækin sem þurfa mestu aðstoðina, ef markmiðið væri þess í stað að tvöfalda tíðni stórra, flottra nýsköpunarfyrirtækja, þ.e. í staðinn fyrir að þau komi upp að jafnaði á tíu ára fresti að þau komi að jafnaði upp á fimm ára fresti? Hver væri breytingin í frumvarpinu þá? Væri það niðurlagning Nýsköpunarmiðstöðvar? Ég held ekki. Væri það aukið fjármagn í Tækniþróunarsjóð? Já, þarna gæti verið möguleiki. Væri það kannski breyting á áherslum?

Tækniþróunarsjóður, eins góður og hann er, fjallar ekki um alla hluti. Hann fjallar um tækniþróun. Hann hefur vissulega með ýmiss konar aukahluti að gera en það er ekki mikið svigrúm fyrir þjónustuþróun sem er ekki tæknilegs eðlis innan Tækniþróunarsjóðs. Það er ekki mikið svigrúm fyrir vöruþróun sem felur ekki í sér rannsóknir innan þess. Gætum við kannski náð meiri árangri með því að fókusera aðeins meira á útflutningssögu, að verið sé að búa til hvata til þess að fyrirtæki reyni að hafa eins mikla arðsemi í útflutningi og mögulegt er? Ég held að svona hugsun væri miklu líklegri til að skila af sér einhverju, en ekki taka mark á mér um það, hlustum frekar á fólkið sem hefur bókstaflega gert þetta, sem, eftir því sem ég best veit, var ekki talað við. Ég hef ekki séð umsagnir frá því.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna ríkisstjórninni þykir eðlilegt að kúvenda nýsköpunarumhverfi Íslands án þess að tala við þekkingarmesta og reynslumesta fólkið á þessu sviði, bæði starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og þá sem hafa leitt þessi fyrirtæki á þann punkt sem þau eru komin í dag, án þess að heyra í þeim hljóðið, án þess að heyra í þeim um hvað virkar og hvað virkar ekki. Hvernig dettur fólki það í hug? Ef maður ætti að skrifa handrit að gamanleikriti væri þetta kannski fínt upplegg en ef markmiðið er að reyna að búa til gott nýsköpunarumhverfi fyrir íslensk fyrirtæki þá er þetta þveröfugt við það sem á að gera. Ef markmið okkar er að búa til gott nýsköpunarumhverfi þá verðum við að byrja á því að átta okkur á því hvað hefur gengið vel, hvað hefur gengið illa og breyta kerfinu í átt að því, laga það sem er að og gefa í þar sem gengur vel. Að hrúga öllu út með þessum hætti skilar okkur í besta falli óvissu og að öllum líkindum ringulreið.