151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég lét þess getið í 1. umr. um þetta mál, þar sem ekki margir voru á mælendaskrá, að mér fyndist eins og það hefði eiginlega orðið til í fundarhléi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Annaðhvort hefðu menn verið með skrá yfir stofnanir á blaði og svartan tússpenna til að strika yfir eða með servíettu, bryddaðri með fálkanum, þar sem menn hefðu skrifað nöfn á stofnunum sem þeim væru ekki þóknanlegar. En þetta mál er, eins og fram kom í ræðu minni þá, vont, herra forseti. Og eftir að þetta mál hefur gengið til nefndar eins og það gerði, eftir heimsóknir fólks sem kom fyrir nefndina og eftir umsagnir sem bárust um málið er ljóst að málið er mun verra en meira að segja þeir sem töluðu gegn því í upphafi héldu.

Ég veit eiginlega ekki hvar maður á að byrja að gagnrýna þetta mál vegna þess að það virðist vera einhver plagsiður í ríkisstjórninni að rífa upp starfsemi með rótum án þess að vita hvað eigi að gerast næst. Þetta hefur t.d. verið mjög áberandi í störfum hæstv. heilbrigðisráðherra sem hefur rifið upp með rótum alls konar starfsemi án þess að vera með í hendi hvað gera skuli næst. Þetta mál er af sama toga. Hér á að tæta niður ríkisstofnun og það er reyndar búið að því, þrátt fyrir að þetta frumvarp sé ekki orðið að lögum. Það er búið að segja upp fólki hjá Nýsköpunarmiðstöð, fólki með áratugareynslu og -starfsaldur, það er búið að segja því upp. Þannig að ef skynsemin kemur til með að ráða hér í þingsal, sem gæti gerst og gerist vonandi, og þetta frumvarp verður fellt eða kallað til baka, sem væri í sjálfu sér best, hvað verður þá um fólk sem búið er að segja upp hjá Nýsköpunarmiðstöð? Það kom fram í máli þeirra sem ég heyrði í á þeim tíma þegar frumvarpið var lagt fram að það var ekki einungis, herra forseti, að ekki hefði verið haft samráð við starfsfólk sem þarna var með áratugastarfsaldur heldur var þetta fólk gjörsamlega hunsað, herra forseti. Það var ekki virt viðlits.

En svo að ég snúi mér aftur að landsfundi Sjálfstæðisflokksins þá geri ég líka ráð fyrir að menn hafi sagt: Hérna eru tveir fyrir einn, við slátrum einni ríkisstofnun og búum til einkahlutafélag. Ég er viss um að fagnaðarlátum hefur seint linnt, þeirra sem til heyrðu. En, herra forseti, það er einmitt eitt af því sem ég reyndi að fá svar við í 1. umr. meðan hæstv. ráðherra var hér á vettvangi. Ég spurði: Hvað kostar tilurð einkahlutafélagsins? Verður það með lágmarkshlutafé, sem er 500.000 kr., ef ég man rétt, eða verður það kannski með einhverjar milljónir í hlutafé eða tugmilljónir sem maður myndi halda að starfsemi af þessum toga þyrfti ef hún ætti að vera eitthvað? Nú geri ég ráð fyrir því að ríkið muni leggja fram hlutafé í þetta einkahlutafélag þangað til að einhverjum verður hleypt að troginu. Ég geri ráð fyrir því að það að stofna þetta hlutafélag verði ekki útlátalaust fyrir ríkissjóð en þetta er gert akkúrat á þeim tíma, herra forseti, þegar nýsköpun skiptir okkur kannski meira máli en nokkru sinni fyrr, akkúrat þegar við ættum að vera að byggja heildaráætlun um nýsköpun, alveg frá hugmynd að fullbúnu fyrirtæki.

Eins og menn vita hafa það orðið örlög margra sprotafyrirtækja á Íslandi að þegar þau eru orðin burðug og þegar vara er orðin til, kominn er árangur af erfiðinu, eru þessi fyrirtæki seld úr landi. Af hverju? Það er út af því að íslenskar fjármálastofnanir eru mjög tregar til að lána í nýsköpunarfyrirtæki. Við Íslendingar virðumst hafa horn í síðu nýsköpunarfyrirtækja. Það vill þannig til að ég heimsótti Össur stoðtækjasmiðjuna fyrir nokkrum árum. Eins og margir vita er Össur, ef ég man rétt, 60% í eigu danskra lífeyrissjóða. Hvers vegna? Vegna þess að u.þ.b. þegar Össur fór á markað, ætli það hafi ekki verið á árunum 2004–2006, einhvern tímann þá, voru íslenskir lífeyrissjóðir hvattir til að taka þátt og kaupa hlutafé í Össuri. Nei, þeir vildu það ekki. Af hverju? Jú, þeir voru að fjárfesta í viðskiptabönkunum á Íslandi. Þetta var sem sagt árið 2005 eða 2006 eða 2007. Þeir vildu fá meiri ávöxtun en út úr einhverju svona framleiðslufyrirtæki. Það virðist vera einhver rótgróin meinsemd hér á Íslandi að menn hafi ekki hugmyndaflug til að sjá hvað svona sprotar geta gert fyrir íslenskt þjóðfélag.

Ég heyrði einhvern tímann þumalputtareglu: Við fáum 100 hugmyndir. Það verða tíu þokkalega burðug fyrirtæki. Það verður eitt Marel eða Össur af þessum 100 hugmyndum. Við höfum svo mýmörg dæmi, sérstaklega í tæknigeiranum núna, hugbúnaðargeiranum, þar sem menn þurfa ekki að burðast milli landa með mikil framleiðslutæki. Þau eru mest í hugum þeirra sem hafa fundið upp og geta miðlað og í tölvum. Þessi fyrirtæki eru núna mjög mörg og hafa á undanförnum misserum, bara á örfáum árum, verið seld úr landi í stórum stíl. Hluti af starfseminni hefur farið með. Sumir eru með starfsmenn hér en kannski miklu fleiri víða úti um lönd. Nú hef ég ekkert á móti því að Íslendingar stundi atvinnuuppbyggingu í útlöndum. Ég hef ekkert á móti því. En mér finnst nærtækara að Íslendingar vinni að atvinnuuppbyggingu hér innan lands og mér finnst miklu nærtækara að við sækjum okkur fjármagn, þess vegna erlendis frá, til að byggja upp þessa starfsemi hér.

Herra forseti. Í þessu frumvarpi er engin nýsköpun þó að það heiti frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun. Í því er einfaldlega niðurrif. Það er verið að rífa í sundur stofnun. Það er verið að færa hluta hennar sem er mjög rótgróinn, mikil innbyrðisþekking, mikið stofnanaminni, og ýta honum á annan stað þar sem þekkingin og stofnanaminnið og hefðirnar eru ekki til. En þeir sem höfðu mestan áhuga á þessu máli gátu tikkað við eina stofnun á servéttu inni á landsfundinum og sagt: Nú er þessi úr sögunni. Ég held að það hafi verið mergurinn málsins, að menn gætu komið fram og sagt: Við erum að brjóta niður báknið, sjáið þið bara til, við erum hér að leggja niður stofnun. Við erum líka að búa til einkahlutafélag af því við erum svo miklir frelsissinnar.

Herra forseti. Ég verð að segja að tilraunir hæstv. ráðherra í þessu tilfelli til að einfalda báknið hafa verið ansi snautlegar. Hæstv. ráðherra fann t.d. hópana sem eru mjög líklegir til að halda hér uppi einokunarstöðu og vera ansi dýrir í rekstri. Það voru bílasalar. Allt í einu greip hæstv. ráðherra til þess ráðs að afnema löggildingu þeirrar stéttar, mögulega með mjög miklu tjóni fyrir viðskiptavinina. Það á við hér, herra forseti. Þeir sem gerst þekkja til hafa sagt mér: Þessi breyting mun koma verulega illa sérstaklega við frumkvöðla sem eru alveg rétt að byrja, sérstaklega frumkvöðla sem eru kvenkyns. Þetta mun koma illa við þessa hópa. Það að breyta Nýsköpunarmiðstöð í einkahlutafélag getur haft það í för með sér að styrkir sem menn hafa sótt erlendis í mjög miklum mæli verði ekki til reiðu lengur. Það má margt segja Evrópusambandinu til lasts en þeir kunna að færa bókhald í Evrópusambandinu og þeir eru býsna stífir á því að allir fjármunir sem verið er að höndla með séu rétt færðir til bókar og rétt með þá farið. Ég hef trú á því, eftir því sem þessir vísu menn með mikla reynslu hafa sagt mér, að það sé ekkert sjálfgefið að styrkveitingar utan úr heimi muni falla í skaut einkahlutafélags vegna þess að menn treysta því einfaldlega ekki að einsleitnin og gagnsæið í meðferð fjár sé það sama í slíku apparati og í ríkisstofnun með þokkalegt orðspor. Það verður að segja að Nýsköpunarmiðstöð hefur þokkalegt orðspor og meira en það, það eru mjög margir sem hafa sent inn umsögn og mætt fyrir nefndina sem hafa sagt að þetta frumvarp, ef það verður að lögum, sé afturför vegna þess að menn hugsa ekki hvað á að gerast næst, vegna þess að það er óskýrt hvað á að gerast næst. En líkt og ég sagði í upphafi, herra forseti, þá fengu menn að strika út eina ríkisstofnun af lista í kaffihléi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins ef sú tilgáta mín er rétt. Ég hef grun um að til þess hafa refirnir verið skornir. Það var ekkert verið að hugsa um að þetta mál væri til framfara á einn eða neinn hátt. Það var ekki hugsunin á bak við það. Hugsunin var einungis þessi: Stútum einni ríkisstofnun svo að við getum barið okkur á brjóst og sagt: Við erum að minnka báknið. Stofnum einkahlutafélag um hluta starfseminnar og sýnum hvað við erum frjálslyndir í verki. Hugsum ekkert um viðskiptavinina, þá sem treysta á stofnunina, hvað þá starfsfólkið, hugsum ekkert um hvernig þetta kemur við þennan hóp. Það kemur okkur ekki við.

Það er með miklum ólíkindum að núna eftir gestakomur skuli menn enn vera það forhertir, ég ætla að leyfa mér að nota það orð, herra forseti, að halda áfram með þetta mál.

Félagar mínir í Miðflokknum, sem skipa 2. minni hluta atvinnuveganefndar, vitna í nefndaráliti sínu í eina umsögn sérstaklega. Það er umsögn Kristjáns Leóssonar sem er þróunarstjóri nýsköpunarfyrirtækisins DT-Equipment ehf. — þetta stendur hér á blaðinu, herra forseti, þetta eru ekki mín orð af því að þingmálið er íslenska — en um málið segir þar, með leyfi forseta:

„Því miður er fyrirliggjandi frumvarp atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um opinberan stuðning við nýsköpun að sama skapi, að mati undirritaðs, samið

án fullnægjandi greiningarvinnu á ráðstöfun opinbers fjármagns til R&Þ,

án fullnægjandi samanburðar við sambærileg kerfi í öðrum löndum,

án fullnægjandi kostnaðargreiningar á fyrirhuguðum breytingum á fyrirkomulagi tæknirannsókna til framtíðar,

án þess að fullnægjandi tillit sé tekið til annarra þátta í starfsemi viðkomandi rannsóknastofnana atvinnuveganna en þeirra sem snúa að nýsköpunarumhverfinu,

án greiningar á hvar helstu tækifæri Íslands í tæknirannsóknum liggi og

án þess að áætlun liggi fyrir um markvissan stuðning við þau svið til að hámarka árangur af framlagi hins opinbera til tæknirannsókna og nýsköpunar í náinni framtíð.

Undirritaður telur að réttast væri að fresta því að leggja fram umrætt frumvarp þar til niðurstöður slíkrar greiningarvinnu liggja fyrir.“

Nú er ég ekki kennaramenntaður. Ég hef ekki reynslu af kennslu og ég hef heldur ekki reynslu við að fara yfir próf en þessi ummæli hér eru falleinkunn í mínum huga, þetta er 0, ekki einu sinni 4,9, þetta er 0. En, herra forseti, menn halda samt áfram. Umsögn eins og þessi er ekki ein stök en menn halda áfram. Það skal haldið áfram, líkt og kerruhestar í fortíðinni með blöðkur fyrir augunum, hafa bara rörsýn á málið. Og þetta fólk segist vera frjálslyndasta fólk á Íslandi, segist vera boðberar frelsisins með kyndilinn í hendinni. Þau fara fram eins og ráðamenn á Íslandi síðustu 50 ár, vaða áfram með hausinn undir sig, tala ekki við neinn, hafa ekki samráð við neinn, hugsa ekkert um það sem fyrir er. Það sem verra er og það sem er kannski verst, það er ekki hugsað um afleiðingarnar af þessu.

Ég segi aftur, herra forseti: Akkúrat á þessum tíma núna ættum við jafnvel að vera að þjappa saman stofnunum sem koma að tækninýjungum og nýsköpun, gera þær öflugri og breiðari, betur til þess fallnar að ráða við verkefni sín. Nei, þá er þessi tekin og tætt niður og áratugagamalli sögu í rannsóknum á byggingariðnaði hent í nýja stofnun. Ég er ekki að gera lítið úr þeirri stofnun eða því fólki sem þar vinnur en stofnanaminnið þar er ekki nema nokkurra ára gamalt, eins árs eða tveggja eða hvað það er, á meðan þarna er áratugareynsla undir. Sama er með einkahlutafélagið. Það er ekki enn búið að segja, eins og ég sagði í upphafi, það liggur ekki fyrir, hvert hlutaféð í þessu einkahlutafélagi, sem ríkið leggur væntanlega til þar til Viðskiptaráði verður hleypt að, eigi að vera. Ef það á að vera 500.000 kall þá er það allt í lagi, þá kostar þetta lítið. En ef þetta á að vera burðugt félag með einhverjum tugum milljóna í hlutafé þá verður þetta ekki ókeypis. Við lendum í sömu klemmu og áður. Til hvers setja menn ríkisstofnanir í einkahlutafélög? Það er t.d. til þess að vera komnir undan launasamningum opinberra starfsmanna. Við horfum á það hvarvetna þar sem ríkisfyrirtækjum hefur verið breytt í opinber hlutafélög eða hlutafélög að þá fara launasamningar toppanna út um gluggann. Það dettur engum í hug að ráða sig inn í svona félag á þeim kjörum sem ríkisstarfsmenn unnu á áður. Og ég veit ekki til þess að ríkisstarfsmenn í þessum stofnunum hafi verið illa þokkaðir eða staðið sig öllu verr en aðrir sem við tóku. Ég veit ekki til þess. Við getum í sjálfu sér farið um víðan völl í því hvað hefur verið gert að opinberum hlutafélögum á Íslandi, alveg sama hvort það er útvarpið eða Isavia eða Pósturinn heitinn, skiptir ekki máli. Alls staðar hafa laun hækkað gríðarlega.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því næstu misseri, verði þetta frumvarp að lögum, hvaða launakjör verða uppi og hver launakostnaðurinn verður í nýstofnuðu einkahlutafélagi í samanburð við það sem áður var í ríkisstofnuninni sem var slátrað á altari landsfundar Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum árum.