151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:05]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu ræðu enda var komið inn á margt sem átti eftir að ræða en mér þótti eitt alveg sérstaklega áhugavert. Hv. þingmaður nefndi að það væri ekki nýsköpun í frumvarpinu, sem ég er að mestu leyti sammála en það ber samt svolítið á ákveðinni nýsköpun í misbeitingu á valdi ráðherra, verð ég að segja. Eins og hv. þingmaður fór yfir er ekki beðið eftir því að þetta frumvarp fari í gegn áður en byrjað er að leggja niður stofnunina. Það er svo gott sem búið að eyðileggja Nýsköpunarmiðstöð Íslands nú þegar með yfirlýsingum í stað lagasetningar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um slíka hegðun vegna þess að það hlýtur að vera þannig að í þingræðissamfélagi eigi svona hlutir eingöngu að gerast (Forseti hringir.) eftir að lagasetning hefur heimilað það en ekki bara vegna þess að það er vilyrði fyrir því í fjárlögum, (Forseti hringir.) sem hæstv. ráðherra mun líklegast bera fyrir sig.