151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það þannig að sá flokkur sem ég tilheyri vill einmitt einfalda ríkisrekstur. Hann vill bregðast við bákninu eins og það er. Það er hins vegar þannig að ef maður ætlar að leggja niður ríkisstofnun eða breyta tilurð hennar að einhverju marki þá segi ég fyrir sjálfan mig að ég myndi æskja þess að það væru tvær aðgerðir eða tvær niðurstöður sem myndu fylgja slíkri niðurlagningu. Annars vegar fjárhagslegur sparnaður og hins vegar efling stofnunarinnar. Þess vegna, eins og ég sagði áður í ræðunni, í staðinn fyrir það að rífa þessa ríkisstofnun í stykki og skipta henni í einkahlutafélag og henda hluta hennar inn í aðra stofnun sem ekki hefur sama stofnanaminni, hvers vegna þá ekki að taka þessi mál saman í eina öfluga stofnun, nýta samlegðina sem það hefur í för með sér og nýta slagkraftinn og breikka starfsemina? (Gripið fram í.) Það er það sem ég skil ekki af því að hér er framsækinn ungur ráðherra á ferðinni með þessi ævagömlu vinnubrögð, sem eru bara vonbrigði.