151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:12]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á vef Stjórnarráðsins segir, með leyfi forseta: „Nýsköpun er undirstaða framfara og aukinnar verðmætasköpunar í samkeppnisdrifnum, alþjóðavæddum heimi.“ Undir þetta má svo sannarlega taka. Ég vil fá að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu, margt gott sem þar kom fram. En í samhengi við mikilvægi nýsköpunar fyrir verðmætasköpun í samfélaginu þá tók ég eftir orðum hans um kvenkyns frumkvöðla og aðstæður þeirra og hefði áhuga á að fá nánari útlistun hv. þingmanns á sýn hans á opinberan stuðning við þessa frumkvöðla, konur. Við tölum fyrir fjölbreytileika og mikilvægi hans í atvinnulífinu en hljótum jafnframt að vera meðvituð um þýðingu þess og þá staðreynd að hópur frumkvöðla er líka fjölbreytilegur hópur.