151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar hv. þingmanns. Það sem ég átti við með því að þetta kæmi illa við kvenkyns frumkvöðla er að í Nýsköpunarmiðstöð núverandi hefur verið sérstakt prógramm, eins og við köllum það á ensku en við notum annað orð yfir það, sem er beinlínis ætlað frumkvöðlum úr hópi kvenna. Þarna er búið að byggja upp þekkingu. Þarna er búið að byggja upp brú á milli þessara frumkvöðla og stofnunarinnar. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir. Núna þegar stofnunin verður liðuð í sundur er þetta verkefni í vindinum. Það var það sem ég átti við þegar ég sagði að þetta frumvarp, yrði það að lögum, myndi koma niður á frumkvöðlum úr hópi kvenna. Eins og við vitum báðir, herra forseti, eru konur nú í miklum meiri hluta þeirra sem sækja sér víðtækari menntun þannig að við eigum ef eitthvað er von á því að fá enn stærri hluta af konum sem koma fram sem frumkvöðlar með nýjar hugmyndir, með aðra sýn. Það er ekki — og ég endurtek að við erum að tala um ungam og ferskan ráðherra með ævagömul viðhorf — í anda þess að stuðla að nýsköpun úr þessum stækkandi hópi að fara fram með þeim hætti sem gert er í þessu frumvarpi, alls ekki, síður en svo.