151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:15]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svörin og áhugann hvað þennan þátt varðar því að ég held að það sé hluti af þeim veruleika að atvinnulíf okkar þyki of einhæft; hluti af lausninni hlýtur auðvitað að vera að virkja krafta allra. Ég tek undir það sem hann segir að miðað við þátttöku og hlutfall kvenna í háskólum landsins sé sá sístækkandi hópur líklegur til að sækja enn frekar fram og sé líka hópur sem eigi stuðning skilinn til að geta gert það. Ég velti því fyrir mér hvaða leiðir hv. þingmaður sér til þess að ýta enn frekar undir það að konur geti sótt fram á þessu sviði.